Móttaka flóttamannahópa

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:16:33 (6444)

2001-04-05 16:16:33# 126. lþ. 107.13 fundur 588. mál: #A móttaka flóttamannahópa# frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:16]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér hefur nokkur atriði borið á góma sem ég þarf að drepa á. Mér finnst óþarfaviðhöfn að gefa út ársskýrslu á hverju ári um móttöku hvers flóttamannahóps. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því að viðhalda því skipulagi sem verið hefur, að Flóttamannaráð geri félmrh. árlega grein fyrir framvindu verkefnis. Þær skýrslur liggja allar frammi í félmrn. og er hægt að fá að sjá þær þar ef einhver hefur áhuga á. Ég sé ekki ástæðu til að fara að gera það að þingskjali.

Varðandi kostnað við þessa móttöku þá hefur reynslan verið sú að þessir þjónustusamningar hafa kostað í kringum ein og hálf millj. á hvern einstakling. Þar af fer um 1 millj. til sveitarfélagsins og hálf millj. til Rauða krossins. Það er ekki gróði fyrir sveitarfélögin af þessum samningum og á ekki að vera það. Hins vegar er dálítil atvinnusköpun í kringum þetta, þ.e. ráðinn einn verkefnisstjóri sem er hópnum til halds og trausts. Annað er unnið í sjálfboðavinnu. Margt er unnið í sjálfboðavinnu, t.d. hafa stuðningsfjölskyldur lagt feiknamikið á sig við að taka vel á móti þessu fólki.

Til að sveitarfélag komi til greina er það skilyrði að þar sé góð félagsþjónusta, góð heilbrigðisþjónusta, leikskóli og skóli. Helst þarf að vera á staðnum framhaldsskóli en það hefur þó ekki verið sett sem skilyrði alls staðar og fer líka eftir samsetningu hópsins, þ.e. hvort einhverjir í hópnum þurfa í framhaldsskóla. Síðast en ekki síst þarf að vera atvinna í boði. Það þarf að vera sæmilega gott atvinnuástand á viðkomandi stað og fyrirsjáanlegt að fullorðnir einstaklingar geti fengið vinnu þegar þar að kemur.

Hvað hlutverk Rauða krossins varðar, sem minnst var á að væri skothent, þ.e. að hann ætti að annast ákveðna hluti utan sveitarfélagsins, þá er það bara af praktískum ástæðum. Þegar eitthvað hefur komið upp á og þurft hefur að leita sérfræðiaðstoðar í Reykjavík þá hefur Rauði krossinn séð um viðkomandi á meðan þeir dveljast í borginni. Það er skýringin á því að þetta er orðað svona. Það er miklu eðlilegra en t.d. Dalvík sjái um fólkið. Rauði krossinn hefur hér íbúðir og getur skotið skjólshúsi yfir einstaklinga.

Rétt er að hafa í huga að heimafólk á þessum stöðum hefur verið ákaflega rausnarlegt við þá flóttamenn sem komið hafa. Í fyrsta lagi eru öllum fjölskyldum gefnar fullkomnar búslóðir. Hvorki ráðuneytið né flóttamennirnir sjálfir hafa þurft að leggja út fyrir búslóðum. Flóttafólkið gengur inn á fullbúin smekkleg heimili í góðum húsakynnum og er náttúrlega undrandi og steini lostið þegar það gengur þarna inn. Eins hefur verið safnað fatnaði og í þann fatnað geta flóttamennirnir gengið og valið sér það sem þeir vilja. Það hefur ekki staðið á því. Það hefur verið safnað feiknamiklu af fatnaði á stöðunum. Það er dálítið sérkennilegt að 80% af þeim fatnaði sem safnast eru kvenföt. Það virðist svo sem konur séu miklu greiðugri að losa fataskápana en karlarnir og kaupa kannski nýtt í staðinn.

Það er rétt, ég þakka hv. þm. Árna Steinari Jóhannssyni fyrir að minnast á það í ræðu sinni áðan, að á Dalvík var tekið á móti flóttamönnum með mjög mikilli prýði og sérstaklega vel séð um þá. Það hefur reyndar verið svo í öllum þeim byggðarlögum sem tekið hafa á móti flóttamönnum, fyrst Ísafirði, síðan Höfn í Hornafirði, Dalvík, Blönduósi og Siglufirði. Alls staðar hefur þetta gengið afar vel.

Varðandi það að auglýsa eftir sveitarfélögum þá tel ég rétt að láta vita af því að flóttamannahópur sé að koma og þeir gefi sig fram sem hafa áhuga á að takast á við verkefnið. Stundum hafa mörg sveitarfélög haft áhuga. Þá hefur verið farin sú leið að reyna að velja það sveitarfélagið sem best er í stakk búið til að taka á móti viðkomandi hóp. Í þeim tilvikum er fyrst litið á félagsþjónustuna, heilbrigðisþjónustuna, skólana og atvinnuástand en það er náttúrlega frumskilyrði að til sé þak yfir höfuðið á fólkinu. Beri auglýsing hins vegar ekki árangur, sem líka getur verið, verður að grípa til þeirra ráða að kanna hjá sveitarfélögum hvort þau vilji taka að sér þetta verkefni. Núna komu t.d. ekki formlegar umsóknir frá neinu sveitarfélagi. Við höfum kannað möguleika sveitarfélaga á að taka við hóp sem kemur í vor. Við höfum rekið okkur á ákveðin vandamál vegna húsnæðisskorts en við höfum verið í viðræðum við Sauðárkrók. Það getur vel verið að ekki verði úr því í ár því þar er erfitt um húsnæði. Það getur strandað á því og þá þurfum við að hafa þar önnur ráð.

Varðandi það hverjum Flóttamannaráð tekur á móti þá eru það einstaklingar sem teljast flóttamenn samkvæmt Alþjóðaflóttamannastofnuninni.

Varðandi hælisleitendur, sem hv. þm. Ásta R. Jóhannesdóttir var að tala um, þá falla þeir undir útlendingafrv. sem hér er líka til meðferðar á þinginu. Þetta frv. er m.a. flutt með hliðsjón af útlendingafrv. og okkur þótti nauðsynlegt að festa Flóttamannaráð í sessi. Í Flóttamannaráði er sérþekking og reynsla sem gott er fyrir ráðuneytið eða stjórnvöld að búa að. Þess vegna er Flóttamannaráði ætlað þetta hlutverk.

Miðað við mannfjölda stöndum við Íslendingar okkur vel í móttöku flóttamanna. Hlutfallslega höfum við tekið á móti flóttamönnum fullkomleg til jafns við þær þjóðir sem best gera og eins og ég sagði áðan fengið mikið hrós frá Alþjóðaflóttamannastofnuninni og samtökum sem hafa látið sig mannréttindi flóttamanna varða.

Hér hefur komið fram að það kæra sig ekki allir um að fara til Íslands. Ýmsir bera vissan kvíðboga fyrir því, halda að hér sé vont veður og hafa misskilið það að hér er besta veður í veröldinni. Það er hins vegar ekki rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði, að hér væri um hámenntað fólk að ræða. Þetta er venjulegt fólk sem við höfum tekið á móti frá Júgóslavíu, flest af því hefur þokkalega menntun, iðnaðarmenn, bílstjórar og fólk sem hefur stundað margvísleg störf. Einn hópur, það var fyrir mína tíð, kom á sínum tíma frá Póllandi. Hann var valinn þannig að þar voru háskólaborgarar í töluverðum mæli en þeir undu sér ekki hér, kannski vegna þess að þeir voru yfirstétt í sínu landi, komu hér og fengu kannski ekki vinnu sem þeir töldu við sitt hæfi. Margir þeirra fóru héðan og yfirleitt til Ameríku.

Þess má að lokum geta að þessir hópar, fjölskyldurnar sem hingað hafa komið, hafa bjargað sér vel. Ég veit aðeins um eina einustu fjölskyldu sem lent hefur í vandræðum með að lifa hér. Hana henti það, sem reyndar hendir sumar íslenskar fjölskyldur líka, að hún steypti sér í skuldir og var lánað óþarflega greiðugt í bönkunum. Hún réð síðan ekki við skuldirnar og hefur lent í dálitlu basli. Annars hefur þetta fólk allt komið sér vel fyrir. Ég veit ekki til þess að nokkur vandræði hafi hlotist af neinum úr þeirra hópi.