Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:42:22 (6450)

2001-04-05 16:42:22# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:42]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Frv. er samið af nefnd sem ég setti til verka í lok ársins 1999. Í nefndinni áttu sæti fulltrúar frá félmrn., Vinnumálastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og dómsmrn. Nefndinni var falið að endurskoða núgildandi lög um atvinnuréttindi útlendinga sem eru nr. 133/1994. Fv. felur í sér heildarendurskoðun á þeim lögum.

Í frv. er að finna reglur um rétt útlendinga hér á landi til atvinnu að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Frv. er einnig ætlað að tryggja réttaröryggi útlendinga sem koma til landsins í atvinnuskyni.

Frá gildistöku núgildandi laga hafa orðið miklar breytingar á íslenskum vinnumarkaði. Eftirspurn eftir erlendu vinnuafli hefur stóraukist sem má rekja til mikillar þenslu á vinnumarkaði síðustu ár. Á síðasta ári gáfum við í félmrn. út 4020 atvinnuleyfi til útlendinga búsettra utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þá hefur líka orðið sú breyting að þeir útlendingar sem hingað koma til vinnu dvelja hér lengur en áður var og reynir því oftar á rétt fjölskyldu þeirra til dvalar og atvinnu í landinu. Við gerðum stikkprufu á þeim sem fengu atvinnuleyfi fyrir fjórum árum og 40% af þeim eru enn þá í landinu. Af konum á Íslandi milli tvítugs og þrítugs eru 8% erlendir ríkisborgarar.

Nefndin hefur sérstaklega litið á framkvæmd núgildandi laga með tilkomu Vinnumálastofnunar og svæðisvinnumiðlana þar sem félmrh. hefur falið Vinnumálastofnun að hafa með höndum veitingu atvinnuleyfa. Með frv. er verið að festa þá framkvæmd í sessi.

Vegna þeirra breytinga sem orðið hafa féllu núgildandi lög að mörgu leyti illa að aðstæðum í íslensku samfélagi. Í frv. hefur einnig verið tekið tillit til þeirrar almennu þróunar sem orðið hefur á löggjöf á sviði stjórnsýsluréttar, mannréttinda og í alþjóðlegu samstarfi.

Endurskoðun laga um atvinnuréttindi útlendinga hefur tekið nokkurt mið af frv. til laga um útlendinga og þetta frv. rímar við útlendingafrv. hæstv. dómsmrh. Á það m.a. við um hugtakanotkun. Leitast hefur verið við að hafa samræmi á þessu sviði eins og unnt er. Dvalarleyfi og atvinnuleyfi eru nátengd, þannig að nauðsynlegt er að taka tillit til framangreinds frv.

[16:45]

Þá er í frv. kveðið á um samstarf Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar. Eins er að finna ákvæði um útgáfu skírteinis vegna dvalar- og atvinnuleyfis sem Útlendingastofnun skuli annast útgáfu á, enda er það til samræmis við núgildandi vinnulag þar sem slík útgáfa væri í höndum útlendingaeftirlits samkvæmt samkomulagi.

Ákvæði um brottvísun í núgildandi lögum um atvinnuréttindi útlendinga eru felld út, enda er um brottvísun fjallað í 20. gr. frv. til laga um útlendinga, en forsenda dvalarleyfis vegna atvinnu er m.a. vissan um að atvinnuleyfi fáist.

Helstu nýmæli frv. eru eftirfarandi:

1. Atvinnuleyfi til sérhæfðra starfsmanna.

2. Heimilt er að víkja frá skilyrði um umsögn stéttarfélags þegar ekki er til að dreifa stéttarfélagi eða landssambandi í hlutaðeigandi starfsgrein.

Undir þetta ákvæði falla m.a. nektardansmeyjar, því ekki er neitt stéttarfélag þeirra hér á landi. Hins vegar er samstarfsnefnd sem lagt er til að taki á almennum álitamálum varðandi útgáfu atvinnuleyfa og fjalli um beiðnir sem berast til Vinnumálastofnunar vegna atvinnuleyfa fyrir hópa. Þessi nefnd mundi væntanlega geta skipt sér af nektardansmeyjum.

3. Atvinnurekandi skal samkvæmt frv. sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn þar til hann nýtur verndar samkvæmt ákvæðum almannatryggingalaga.

4. Atvinnurekandi skal undir sérstökum kringumstæðum ábyrgjast greiðslu vegna heimflutnings starfsmanns.

5. Framkvæmd vegna útgáfu heilbrigðisvottorða verði breytt þannig að tekin verða gild erlend vottorð ef þau eru fullnægjandi samkvæmt reglugerð á grundvelli laganna og sóttvarnalaga, nr. 19/1997.

6. Í frv. er heimildarákvæði um að veita nánustu aðstandendum útlendings tímabundið atvinnuleyfi, enda hafi hann fengið búsetuleyfi og óbundið atvinnuleyfi.

7. Með frv. er, ef ríkar sanngirnisástæður eru fyrir hendi, heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til starfa hér á landi.

Gert er ráð fyrir að túlka þetta ákvæði mjög þröngt, en þær aðstæður geta skapast að eðlilegt sé að einstaklingur, t.d. hælisleitandi, geti fengið atvinnuleyfi hér og unnið fyrir sér.

8. Í frv. eru sérstök ákvæði um íslenskukennslu og samfélagsfræðslu, þ.e. að atvinnurekanda er skylt að upplýsa erlendan starfsmann um möguleika á íslenskukennslu og samfélagsfræðslu.

9. Í frv. er heimild til að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða skilnað útlendings sem hefur verið giftur Íslendingi í a.m.k. tvö ár, enda hafi viðkomandi átt samfellt lögheimili í landinu í a.m.k. tvö ár.

10. Í frv. er heimilt að víkja frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða andlát íslensks maka útlendings.

11. Frv. kveður einnig á um að víkja megi frá því skilyrði við veitingu óbundins atvinnuleyfis að þegar liggi fyrir tímabundið atvinnuleyfi, ef um er að ræða útlending sem verið hefur í námi hér á landi að lágmarki í þrjú ár og lokið námi.

12. Í frv. eru skilyrði afturköllunar atvinnuleyfis tilgreind.

13. Í frv. er kveðið á um samráðsnefnd Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar.

14. Í frv. er nýr kafli um málsmeðferð þar sem koma fram helstu meginreglur um málsmeðferðina og kæruheimild.

Herra forseti. Ég ætla ekki að orðlengja þetta meira að sinni, en legg til að málið fari til athugunar hjá hv. félmn.