Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 16:49:58 (6451)

2001-04-05 16:49:58# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Þetta er heildarendurskoðun á þeim lögum og verð ég að segja að hér er flest og nánast allt til bóta af því sem málið tekur til. En mig langar til að gera nokkur atriði aðeins að umtalsefni.

Það vakti athygli mína á ársfundi Vinnumálastofnunar hversu mikið hafði verið tekið saman af upplýsingum um útlendinga við störf hér og athyglisvert hve margir sem hafa komið hingað dvelja hérna áfram við störf. Sömuleiðis hvað útlendingum hefur fjölgað á vinnumarkaði og er það af hinu góða að hér skuli vera komið frv. þar sem lög er varða þennan hóp eru endurskoðuð.

Ég vil aðeins gera að umtalsefni tvennt ef ekki þrennt í frv. sem mig langar að vekja athygli á. Ég sé að tekið er á atriði sem ég hef gert að umtalsefni vegna frv. sem við nokkrir þingmenn Samfylkingarinnar höfum flutt á þingi um atvinnuleyfi þeirra sem hafa undanþágu, þ.e. þeirra sem eru í hjónabandi með íslenskum ríkisborgara og hafa haft undanþágu á því að þurfa atvinnuleyfi, þar sem í frv. var lagt til að viðkomandi fengi óbundið atvinnuleyfi vegna þess ákvæðis í núgildandi lögum að ef hjónabandið endaði af einhverjum ástæðum, vegna skilnaðar eða fráfalls maka, þá stóð viðkomandi einstaklingur uppi án atvinnuleyfis. Ég sé að tekið er á því atriði í frv. Þar er sem sagt fallið frá skilyrðum varðandi óbundið atvinnuleyfi þegar um er að ræða skilnað útlendings sem hefur verið giftur Íslendingi a.m.k. í tvö ár.

Ég velti fyrir mér hvort tvö ár er of langur tími. Það er auðvitað alltaf matsatriði og ég veit að hæstv. ráðherra hafði áhyggjur af því þegar frv. sem ég var með hér fyrr í vetur var til umræðu, hann taldi hættu á því að menn færu út í hagkvæmnishjónabönd til að geta komið hingað til lands og fengið dvalar- og atvinnuleyfi. En ég velti því fyrir mér hvort tvö ár eru e.t.v. of langur tími. Aftur á móti er tekið sérstaklega á þegar maki útlendings, þ.e. íslenski makinn fellur frá, þá er alveg vikið frá þessum skilyrðum og tel ég það vera af hinu góða og einmitt í þá veru sem við lögðum til í frv. okkar sem nú liggur hjá félmn.

Hæstv. ráðherra kom inn á það að þetta frv. væri unnið með frv. dómsmrh. um útlendinga. Af því að tekið er á því hér í sambandi við nýmæli í frv., að heimilt sé að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir áður en útlendingur kemur í fyrsta sinn til starfa hér á landi og hæstv. ráðherra talaði um að þetta yrði túlkað þröngt, þá velti ég því fyrir mér og langar til að spyrja: Ef útlendingur utan Evrópska efnahagssvæðisins kemur hingað til lands, t.d. á tímabundnu dvalarleyfi í heimsókn, t.d. til ættingja og dvelur hér kannski í þrjá mánuði eða lengur, mundi hann geta fengið atvinnuleyfi í kjölfarið án þess að ...? --- Hann mundi ekki geta það, segir hæstv. ráðherra hér og hristir höfuðið.

Ég hefði kannski talið ástæðu til að skoða það atriði því til mín hafa leitað nokkrir aðilar sem hafa lent í þessu og telja það mjög ósanngjarnt þegar fólk er búið að dvelja hérna og unir sér vel, vill gjarnan vera áfram, að það geti ekki fengið atvinnuleyfi meðan það dvelur hér, það þurfi að fara í burtu og sækja síðan um. Það eru oft talsverð útgjöld fyrir fólk sem kemur hingað um langan veg, er kannski ekki vel stætt, að þurfa síðan að fara til annarra landa, því langt er til næstu landa héðan og oftast kostnaðarsamt. Ég velti fyrir mér hvort eitthvað sé hægt að taka á þeim þætti. Ég hefði gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra þegar hann kemur hér aftur upp að lokinni umræðunni um þetta mál, hvort einhver möguleiki sé á því að skoða einhvern sveigjanleika varðandi þennan hóp sem er að ég tel ekki stór, þó veit hæstv. ráðherra sjálfsagt betur um það en ég.

Við munum fara yfir þetta mál í félmn. og auðvitað þurfa þeir aðilar sem þetta mál varðar, mannréttindasamtök innflytjenda, aðrir hópar, önnur samtök útlendinga sem starfa hér á landi, að fá málið til umsagnar. Við munum að sjálfsögðu fjalla um þær athugasemdir sem þeir gera í framhaldinu og eftir slíka yfirferð mundum við náttúrlega fara í frekari umræðu um málið.

En þessi þrjú atriði vildi ég gera að umtalsefni. Ég vil fagna þeirri breytingu sem er í þá veru sem frv. okkar þingmanna Samfylkingarinnar er í sambandi við þá sem missa maka og hafa þá eins og lögin eru í dag misst atvinnuréttindin um leið, þar er tekið sérstaklega á því. Síðan þá sem skilja og ég velti því sem sagt fyrir mér hvort þau tímamörk ættu e.t.v. að vera skemmri. Og að síðustu þetta um heimildina til að víkja frá þeirri meginreglu að tímabundið atvinnuleyfi skuli ætíð liggja fyrir varðandi þá sem hafa verið hér um nokkurn tíma og vilja síðan hefja störf.