Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:23:17 (6456)

2001-04-05 17:23:17# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., JB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:23]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um atvinnuréttindi útlendinga. Ég vil gæta hófs í að mæra hæstv. ráðherra fyrir framsýni, lipurleika, gáfur, greind og hvað það nú var. (Gripið fram í.) Ég dreg þó ekkert í efa að hann sé gáfaður. Ég vil einmitt segja að vegna uppruna síns, aldurs og fyrri starfa, ætti hann að búa að skynsemi og skilningi á því máli sem hér hefur verið lagt fram. Einmitt til sveita hefur þetta verið mikilvægt, í samskiptum við aðrar þjóðir og eins til að sækja vinnuafl. Útlendingar hafa komið til Íslands til að vinna og dveljast á sveitaheimilum, ekki hvað síst þegar erlendir ríkisborgarar komu fyrst til vinnu hér á landi. Það hefur síðar færst yfir á fiskvinnslu og aðrar starfsgreinar. Ég held að hæstv. ráðherra hafi góðan bakgrunn til að takast á við þetta mál.

Bakgrunnur ráðherrans var þó ekki ástæðan fyrir því að ég kom hér upp. Ég ætlaði aðeins að forvitnast um framkvæmdina á 15. gr. Mér finnst 10. gr., sem áður hefur verið minnst á, um atvinnuleyfi sérhæfðra starfsmanna, ágæt og í takt við raunveruleikann. Þar er gert heimilt við sérstakar aðstæður að veita útlendingi, sem fyrirhugað er að senda hingað til lands á vegum fyrirtækis sem ekki hefur starfsstöð hér á landi, tímabundið atvinnuleyfi að uppfylltum vissum skilyrðum. Eins líka finnst mér líka góð árétting í 7. gr.

Í 15. gr. eru taldir upp þeir útlendingar sem undanþegnir eru kröfum um atvinnuleyfi vegna vinnu í allt að fjórar vikur hér á landi. Rauði þráðurinn í gegnum þetta frv. er m.a. að tryggja réttindi þeirra sem koma hingað til vinnu, að við þá séu gerðir viðurkenndir ráðningarsamningar sem kveði á um réttindi og skyldur starfsmanna, um aðgang þeirra að velferðarkerfi okkar o.s.frv., þ.e. almennar tryggingar. Það er mjög mikilvægt í heimi farandverkafólks, ef það má orða það svo, að tryggingaumgjörð þess sé í góðu lagi. Því miður hefur þar stundum verið misbrestur á.

Fjölgað hefur í hópi þeirra sem koma hér og vinna í allt að fjórar vikur eins og þarna er tilgreint, sem vinna að fjölþættu rannsóknarsamstarfi, sérfræðingar og nemendur sem fá á einhvern hátt þóknun eða fargjöld greidd af stofnunum hér á landi. Tryggingamál þeirra og öryggismál eru oft vafa undirorpin. Ég þekki þetta persónulega, hef reynslu af þessu úr starfi mínu þar fólk hefur komið til að dvelja 2--4 vikur, unnið á vegum stofnunar og tekið að sér verkefni. Hluti af þessu eru gagnkvæmir samstarfssamningar. Verði hins vegar eitthvert slys eða komi eitthvað upp á, hver ber þá ábyrgð á viðkomandi? Hver er þá réttarstaða hans? Að sjálfsögðu er ekki auðvelt að taka á þessu en þetta fyrirkomulag er algengara en áður var. Hingað koma fleiri til að vinna um skamman tíma og falla þar af leiðandi ekki undir það að gera þurfi við það formlega ráðningarsamninga. Engu að síður er þetta fólk oft að vinna meira eða minna á ábyrgð íslenskra aðila.

Ég vildi nefna þetta til viðbótar í annars ágætri umræðu um þetta frv. Það eru einmitt ráðningarsamningarnir og ráðningarformin sem veita aðhald og tryggari umgjörð. Það er mikilvægt að sem fæst vandamál og óvissuatriði skapist í kringum þessi ágætu verkefni, þau ágætu verk sem þetta fólk kemur hingað til að vinna.