Atvinnuréttindi útlendinga

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 17:29:06 (6457)

2001-04-05 17:29:06# 126. lþ. 107.15 fundur 624. mál: #A atvinnuréttindi útlendinga# (heildarlög) frv., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir framúrskarandi jákvæðar viðtökur sem þetta frv. hefur hlotið. Ég er ekki óvanur því að stjórnarandstaðan hæli mér fyrir uppruna minn, ef ekki vill betur til, aldur og fyrri störf. Ég er þakklátur fyrir það hvað hv. þm. hafa tekið vel á móti þessu frv.

Ég er sammála því að ég teldi fara miklu betur á að öll löggjöf um útlendinga væri á einum stað og þá væntanlega hjá félmrn. Við fórum þess á leit við undirbúning þessara frv. hvort ekki væri hægt að gera þar breytingu á og færa aðra flokka sem útlendinga vörðuðu undir félmrn. Niðurstaðan var hins vegar sú að gera það ekki. Dómsmrn. vildi halda í verkefnin sem þar voru og við það verður að una.

[17:30]

Það var spurning um hvort skylda væri að halda námskeið. Það er ekki skylda enn þá. Í einhverri skoðanakönnun sem sagt var frá í fjölmiðlum meðal útlendinga þá töldu nú, ef ég man rétt, 80% þeirra ástæðu til að gera það að skyldu að læra íslensku eða kenna íslensku að einhverju marki. En við erum að gera tilhlaup til og ég held að enginn vafi leiki á því að við komumst ekkert hjá því að sinna íslenskukennslu og aðlögun útlendinga að þjóðfélaginu miklu betur en við höfum gert. Þá er ég ekki bara að tala um farandverkamenn. Ég er fyrst og fremst að tala um það af fólkinu sem ætlar að setjast hér að.

Við erum að opna nýbúamiðstöð á Vestfjörðum og ég bind miklar vonir við að mikið gagn verði að henni. Á vegum Reykjavíkurborgar er myndarleg starfsemi varðandi starf með nýbúum og eins kennslu, að aðstoða nýbúa við nám hjá Námsflokkunum. Á Vestfjörðum er tiltölulega langflest af útlendingunum. Í einu byggðarlagi voru samkvæmt síðustu tölum sem ég hef 17% útlendingar, þ.e. á Tálknafirði. Það eru 8--9% á Vestfjörðum og á Ísafirði finnast 40 þjóðerni. Það þarf meira en lítinn kennslukraft og meira en litla þekkingu til að geta kennt þeim hópi eða boðið öllum þeim hópi upp á viðunandi íslenskukennslu. Meira en það. Börnunum þarf að kenna líka mál foreldranna þannig að þetta er tvöfaldur vandi.

Ég sé ekki annað en að skólakerfið verði að annast þetta. Ég held að ekkert lag verði á öðru en það verði skólakerfið sem verði að gera það. Jöfnunarsjóður borgar verulegar fjárhæðir til stuðningskennslu tvítyngdra barna eða þeirra sem hafa ekki íslensku fullkomlega á valdi sínu í grunnskólanum. En eftir að grunnskóla sleppir þá tekur ekki jöfnunarsjóður lengur þátt í því.

Við í félmrn. höfum verið að sýsla við ýmsa hluti. Við höfum verið að styrkja útgáfustarfsemi. Við höfum gefið út bæklinga, bæði handbók fyrir þá sem eru að vinna með útlendingum og sýsla með mál þeirra og í öðru lagi bækling á átta tungumálum um helstu réttindi og skyldur í þjóðfélaginu og mikilvægustu upplýsingar um það samfélag sem hér er. Við höfum kostað þýðingu á kjarasamningum. Við höfum styrkt gerð orðabóka, bæði á pólsku, serbó-króatísku, tælensku og svona mætti lengur telja. Við höfum tekið þátt í kostnaði við tungumálanámskeið í Reykjavík eða kostað tungumálanámskeið að verulegu leyti. Því er fullur vilji hjá okkur til að sinna þessum málum en hitt er svo annað mál að þetta kostar allt saman peninga.

Hvernig eigi að skilgreina nánustu aðstandendur þori ég ekki að fullyrða og það getur vel verið réttmæt ábending að það væri rétt að taka það inn í orðskýringarnar. En ég held, án þess þó ég viti það með vissu, að í lagamáli sé hugtak sem heitir ,,nánustu aðstandendur`` og þar sé það skilgreint. Ég þori ekki að fara með þá skilgreiningu en ég hygg að það sé þannig.

Hv. þm. Jón Bjarnason gerði 15. gr. að umtalsefni þar sem teknir voru upp þeir sem voru undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi í allt að fjórar vikur. Hv. þm. benti réttilega á að atvinnurekandinn er ekki ábyrgur fyrir þessum mönnum með sama hætti og hann fær atvinnuleyfi fyrir. Þetta er alveg rétt. En þessir einstaklingar eru yfirleitt þannig í stakk búnir að þeir ættu að vera sjálfbjarga, þ.e. þetta eru vísindamenn og fyrirlesarar, listamenn, íþróttaþjálfarar, fulltrúar í viðskiptaerindum, ökumenn fólksflutningabifreiða, blaða- og fréttamenn og starfsmenn, ráðgjafar og leiðbeinendur sem vinna að sérhæfðri samsetningu, uppsetningu, eftirliti eða viðgerð tækja. Þetta er allt saman fólk sem er sæmilega í stakk búið til þess að bjarga sér af eigin rammleik. Í þessum hópi voru nektardansmeyjarnar þangað til í fyrravetur að við breyttum lögunum og undanskildum nektardansmeyjar eða þá sem koma fram á næturklúbbum og nú þurfa þeir einstaklingar atvinnuleyfi, m.a. til þess að atvinnurekandinn beri ábyrgð á þeim.

Gerð var rassía á næturklúbbana hér í borginni fyrir örfáum kvöldum. Þar voru taldar þær dömur sem þar komu fram. Ég man ekki þær tölur en ég held að 36 hafi verið með ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar af voru allar með atvinnuleyfi nema tvær og þeim var umsvifalaust vísað úr landi eða innan 48 klukkustunda. Níu voru giftar Íslendingum, 16 eða 18 voru af Evrópska efnahagssvæðinu og þurftu ekki atvinnuleyfi. En það liggur fyrir að það hefur komið fyrir að þessar stelpur hafa verið á köldum klaka og atvinnurekendur þeirra eða þeir sem reka staðina, hafa ekki sinnt því að meðhöndla þær á skikkanlegan hátt. Nú eru þær á ábyrgð viðkomandi atvinnurekanda.

Það er rétt að það var þrengt í 12. gr. atvinnuleyfi vegna námsdvalar. En núna er það skilyrði sett inn að námsframvinda sé eðlileg en hámarksgildistími leyfis er styttur úr ári í sex mánuði og þar er um að ræða þrengingu frá núgildandi lögum. En við framkvæmd þessa ákvæðis hefur komið í ljós að skilgreiningar þóttu of rúmar. Það hefur m.a. leitt til þess að útlendingar hafa jafnvel átt greiðari leið inn á íslenskan vinnumarkað á grundvelli atvinnuleyfis vegna námsdvalar en á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis. Þá er fellt niður skilyrði um umsögn stéttarfélags þegar um er að ræða starf sem er hluti af námi og vísa ég hér til skýringa við þessa grein.

Einnig má líta svo á að ef viðkomandi er í námi þurfi hann auðvitað einhvern tíma til að sinna náminu og þá er ekki óeðlilegt að sex mánuðir í senn nægi honum til vinnunnar.

Hv. þm. Karl V. Matthíasson gerði að umtalsefni svona til hliðar við þetta erlenda starfsmenn og þá einkanlega í fiskvinnslu. Það vill svo til að ég er vopnaður með svarbréf til sveitarstjórans í Grundarfirði sem unnið var í félmrn. Ég ætla, með leyfi forseta, að lesa upp kafla af því:

,,Erlendir starfsmenn sem starfa hér á landi við fiskvinnslu á grundvelli tímabundins atvinnuleyfis samkvæmt lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 133/1994, eiga ekki rétt á greiðslu úr Atvinnuleysistryggingasjóði ef kemur til uppsagnar vegna hráefnisskorts. Hins vegar á erlendur starfsmaður, sem er með óbundið atvinnuleyfi, sama rétt og Íslendingur til greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði, samanber ákvæði 3. tölul. 1. mgr. 2. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997.

Erlendir ríkisborgarar með lögheimili hér á landi eiga sama rétt til félagsþjónustu sveitarfélaga og Íslendingar. Hér er rétt að benda á endurkröfurétt sveitarfélagsins til ríkisins vegna þessa en um hana er fjallað í lögunum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt b-lið er kveðið á um að skilyrði sé að erlendi ríkisborgarinn hafi átt lögheimili í landinu skemur en tvö ár. Til frekari upplýsinga vegna réttar útlendinga til félagsþjónustu fylgir bæklingur félmrn. sem sendur var til Grundarfjarðar og hann heitir Leiðbeiningar um félagsþjónustu við erlenda ríkisborgara. Samkvæmt upplýsingum frá Alþýðusambandi Íslands hafa erlendir starfsmenn sama rétt og aðrir félagsmenn til greiðslna og stuðnings frá því stéttarfélagi þar sem þeir greiða félagsgjald ...`` og vísast í því sambandi til laga ASÍ og laga stéttarfélaganna. Lýkur hér tilvitnun í þetta bréf til Grundarfjarðar.

Fyrir nokkru var athygli mín vakin á því að svo gæti farið að hér yrðu vegalausir útlendingar í fiskvinnslu ef verkfallið yrði langt. Ég hugleiddi að breyta lögum þannig að þeir öðluðust rétt til bóta úr Atvinnuleysistryggingasjóði. En eftir nokkrar vangaveltur var horfið frá því ráði þar sem það hefði hugsanlega getað þótt íhlutun á viðkvæmum tíma í verkfall. En ég tel að það komi vel til greina þegar róast um og þessu verkfalli er lokið að hleypa þeim inn í öll réttindi Atvinnuleysistryggingasjóðs. Ég fór hins vegar formlega fram á það við fiskverkendur að rjúfa ekki ráðningarsambandið og Atvinnuleysistryggingasjóður kæmi til með að greiða atvinnurekandanum það sem færi í bætur handa viðkomandi starfsmanni og hann bætti síðan við til þess að ná upp í kauptrygginguna. Þetta kostar að vísu nokkuð fyrir atvinnurekandann en sem betur fer hafa langflestir atvinnurekendurnir farið að þessu ráði. Í morgun var staðan með útlendinga í fiskvinnslunni þannig, með leyfi forseta:

Á Austurlandi voru engir útlendingar á Vopnafirði. Það er hópur útlendinga á Bakkafirði. Þar er fyrst og fremst um smábátaútgerð að ræða og ólíklegt að þeir fari af launaskrá.

Á Norðurlandi eystra sagði Sigvaldi Þorleifsson upp fólki og Tangi á Vopnafirði gerði það líka. Þá gæti orðið að útlendingar færu af launaskrá, en það eru engir útlendingar hjá Sigvalda Þorleifssyni. Ekki er vitað um neina á Norðurlandi vestra. Ekki er vitað um neina í Reykjavík, ekki á Suðurlandi. Það gæti gerst að einhverjir færu af launaskrá á Vestfjörðum, en það er ekki orðið.

Eins er það á Vesturlandi að það gæti gerst í Grundarfirði.