Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:02:42 (6463)

2001-04-05 18:02:42# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:02]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða breytingu á lögum um húsaleigubætur, nr. 138/1997, og hér er verið að gera breytingar til bóta. Sérstaklega vil ég fagna 3. gr. því það er einmitt tillaga sem Samfylkingin hefur lagt til í þáltill. þar sem verið er að koma til móts við námsmenn og fatlaða þar sem þeir eiga nú rétt á húsaleigubótum þó þeir séu ekki beint með íbúð heldur búi í sameiginlegu húsnæði en hafi aðeins herbergi sem er náttúrlega atriði sem við höfum verið að berjast fyrir. Verið er að rýmka réttinn til húsaleigubóta. Sömuleiðis er í 1. gr. verið að einfalda ferlið í útleigu með því að skylda ekki þinglýsingu á leigusamningi í eigu sveitarfélaga eða félaga.

Eins og kom fram í ræðu minni fyrr í dag þegar við vorum að ræða um húsnæðismálin þá langaði mig til að fá svör frá hæstv. ráðherra um frekari aðgerðir til að bæta úr því ástandi, sem oft hefur verið nefnt neyðarástand, sem ríkir í húsnæðismálum láglaunafólks og ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. Hæstv. ráðherra hafði lofað að bæta úr eftir að fyrrverandi húsnæðiskerfi var lagt niður, bæta úr því ástandi þar sem eru langir biðlistar og hafa þeir tvöfaldast á undanförnum þremur árum.

Þegar þáltill. þingmanna Samfylkingarinnar um að auka framboð á leiguhúsnæði var til umræðu tók hæstv. ráðherra vel undir þær tillögur sem voru þar til umræðu sem komu frá þingmönnum Samfylkingar um úrbætur í þessum málum. Eins og ég nefndi áðan eru í frv. a.m.k. ein ef ekki tvær af þeim tillögum. Aftur á móti hefði ég viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hann hyggst bregðast frekar við þessu ástandi en það kom glöggt í ljós þegar skýrsla nefndar á vegum félmrn. kom út fyrir um ári, eða í apríl árið 2000, að þá vantaði um 1.250 leiguíbúðir til að tæma biðlista eftir leiguíbúðum hjá sveitarfélögunum og hátt í 700 leiguíbúðir vantaði til að tæma biðlista hjá félagasamtökum. Þar kom einnig fram að um 2.000 einstaklingar og fjölskyldur virtust vera á biðlista eftir leiguíbúðum.

Nýlegar upplýsingar frá yfirvöldum í Reykjavík sýna að um 600--700 einstaklingar og fjölskyldur eru í þörf fyrir leiguíbúðir og sömuleiðis eru háar tölur um umsóknir sem bíða hjá Félagsstofnun stúdenta eða hátt yfir 800 á síðasta ári. Sömuleiðis veit ég að biðlistar eru allnokkrir hjá Öryrkjabandalaginu þó að útlit sé fyrir að það muni leysast með nýjum samningum þar um.

Við vitnuðum í það þegar við ræddum þessi mál í sambandi við þáltill. okkar að félagsmálastjórinn í Reykjavík sagði opinberlega að ástandið á leigumarkaði færi stöðugt versnandi og biðlistar lengdust sífellt og aldrei hefði verið jafnslæmt ástand á leigumarkaðnum í Reykjavík frá því að núverandi félagsmálastjóri Reykjavíkur hóf störf fyrir sex árum.

Í ljósi þessa hefði ég gjarnan viljað heyra það frá hæstv. ráðherra hvað hann hyggist gera sérstaklega til að bæta úr þessu ástandi, til að auka framboð á leiguhúsnæði. Hvað ætlar hann að gera frekar en að koma með það frv. sem hér liggur fyrir sem er til þess að auka rétt til húsaleigubóta? Einnig hefði ég gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort uppi eru áform um að skattlagning á húsaleigubætur verði felld niður. Það er eitt af því sem hefur verið allmikið til umræðu og verið baráttumál, sérstaklega okkar í Samfylkingunni, að fella niður skattlagningu á húsaleigubætur. Ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvort einhver áform eru uppi um það hjá ríkisstjórninni að skattlagning á húsaleigubætur verði felld niður?