Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:10:20 (6465)

2001-04-05 18:10:20# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Það er alltaf jafnánægjulegt að heyra umræður um mál frá félmrh. þegar fulltrúar Samfylkingar koma hér og segja að þetta sé besta mál. Það sé ívilnandi og gott að öllu leyti. Það er alltaf eins og Drottinn almáttugur borgi brúsann. En auðvitað borgar einhver brúsann, að sjálfsögðu. En það er ekki Drottinn almáttugur, ég hef a.m.k. ekki orðið var við það. Það gleymist alltaf í umræðunni.

En mörg mál eru þó þess eðlis að þau eru góð í sjálfu sér vegna þess að þau rýmka rétt sem kostar kannski ekki mikið. Í þessu frv. má nefna t.d. ákvæðið um að ekki þurfi að þinglýsa leigusamningi íbúðar í eigu sveitarfélags, að ekki sé gerð krafa um þinglýsingu. Þá veltir maður fyrir sér af hverju þurfi þinglýsingu yfirleitt. Það er væntanlega til þess að tryggja rétt leigjandans og til að hindra svindl. Það er kannski ekki við því að búast að sveitarfélög fari að níðast á leigjendum með því að segja leigusamninginn ógildan og henda þeim út eða þá að þau fari að taka þátt í svindli. Þetta er því sjálfsagt atriði og ekki mikið mál.

Síðan er spurningin um 2. gr. þar sem talað er um skyldmenni leigusala. Þar er aftur verið að reyna að koma í veg fyrir svindl þannig að fólk sé ekki að leigja börnum sínum eða öðrum slíkum. Hér er bætt inn ákvæði um að ef leigusalinn býr í sama húsi. Menn geta náttúrlega farið ýmsar leiðir með þetta ef þeir vilja og nenna. Tveir aðilar, Jón og Gunnar, gætu t.d. leigt hvor öðrum íbúð hvor annars. Þá eru báðir orðnir leigjendur og ættu rétt á húsaleigubótum og eru ekkert skyldir, að sjálfsögðu ekki. Það eru miklir möguleikar í því ef menn nenna.

Ég hef margoft nefnt að lögin um húsaleigubætur eru með ólíkindum. Í fyrsta lagi kemur hvergi fram í frv. eða í lögunum ákvæði um hvernig húsaleigubæturnar skuli vera uppbyggðar, ekki orð um upphæð húsaleigubóta. Það er reglugerðarákvæði, heimild til félmrh. og hann sest niður með sínum mönnum einhvern morguninn yfir kaffibolla og ákvarðar velferðarkerfið. Þær ákvarðanir sem þetta ágæta fólk í félmrn. hefur tekið eru voðalega skrýtnar. T.d. það að tekjumörkin eru 166.000 kr. á mánuði sem leigjandi má hafa í tekjur án þess að bæturnar skerðist, sama hvort um er að ræða sex manna fjölskyldu eða einstakling, herra forseti. Einstaklingur með 166.000 kr. á mánuði fær óskertar húsaleigubætur. Hann á svona voðalega bágt, hann sér bara um sjálfan sig og engan annan. Ég mundi telja það bara mjög góð lífskjör að vera með þau laun. Hann fær óskertar húsaleigubætur. En sex manna fjölskylda, með 166.000 kr. á mánuði, ég mundi ekki segja að það væru góð lífskjör. Og þá er byrjað að skerða húsaleigubæturnar.

Þetta er eitt sem ég hef lengi haft athugasemdir við og það er svo sem margt fleira sem má gera athugasemdir við. T.d. það sem tekið er á í 3. gr. þessa frv. um skilyrði fyrir húsaleigubótum. Það þarf að vera íbúðarhúsnæði. Húsaleigubætur koma einungis til álita vegna leigu á íbúðarhúsnæði með eldhúsi og baði. Sem sagt: Einstaklingur sem ætlar að hefja lífið með því að spara og búa t.d. í herbergi og kaupa sér íbúð seinna fær ekki húsaleigubætur. Hann skal sko búa í almennilegri íbúð og borga háa leigu. Nema sem námsmaður og fatlaður, það er nýjasta breytingin í frv., það var ekki mögulegt hingað til.

[18:15]

Þá kem ég að námsmönnum. Það var gott ég var minntur á það, það þurfti varla til. Vegna þess að námsmenn fá lánað fyrir húsnæðinu. Það er inni í lánakerfinu að þeir fá lánað fyrir húsnæðinu. Svo fá þeir húsaleigubætur til viðbótar. Heldur herra forseti að eitthvað hafi breyst við það að húsaleigubætur voru teknar upp, þ.e. að námslánin hafi verið lækkuð? Ó nei, þau voru óbreytt. Þetta hefur leitt til þess að einstæður námsmaður með tvö börn er með yfir 200.000 kr. á mánuði í ráðstöfun allt árið og borgar enga skatta og engar skyldur. Helmingurinn af þessum tekjum hans, eða ráðstöfunartekjum, eru lán, 45% nánar tiltekið, restin eru bætur. Allt saman óskert.

Áður en þingfararkaupið var hækkað hafði þessi ágæti einstæði námsmaður með tvö börn ekki efni á því að gerast þingmaður. Hann lækkaði í ráðstöfun við það að vera þingmaður. Ef þetta er velferðarkerfi, herra forseti, sem við viljum stefna að þá er það ekki skilningur minn á velferðarkerfi.

Ég fer stundum að kalla þetta velferðarkerfi okkar ,,velferðarkerfi hinna ríku`` því verið er að bæta fólki sem hefur mjög góð lífskjör eins og einstaklingnum með 166.000 kr., það er verið að bæta þeim bótum úr almennum sjóðum ríkisins sem er greitt af fólki sem er með miklu lægri tekjur, herra forseti, því allt er þetta greitt af einhverjum. Þessar bætur eru greiddar með útsvörum til sveitarfélaganna af öllum launþegum, líka þeim sem eru með lágar tekjur. Þeir eru látnir borga með sköttum sínum bætur til einstaklinga sem eru með háar tekjur.

Ég ætla ekki að nefna hér önnur atriði eins og það að húsaleigubætur hækka að sjálfsögðu húsaleigu. Það er vel þekkt að þegar húsaleigubætur eru teknar upp þá hækkar húsaleiga almennt, kannski ekki alveg um það sem nemur húsaleigubótunum, en kannski fullt að því. Sú stefna að fólk þurfi að leigja heila íbúð hefur leitt til þess að eftirspurnin eftir leiguíbúðum hefur vaxið mjög mikið. Leigan hefur farið upp í himininn og fólkið er kannski ekkert miklu betur sett eftir en áður.

Í plaggi sem félmrn. birtir á heimasíðu sinni kemur fram, og þá er það eftir minni, að húsaleigubætur til manns með 200.000 kr. á mánuði séu 6.000 kr. Verið er að láta einstakling, herra forseti, sem er með 200.000 á mánuði fá húsaleigubætur, 6.000 kr. á mánuði. Er það virkilega skilningur hæstv. félmrh. að einstaklingur, sem þarf aðeins að sjá fyrir sjálfum sér og er með 200.000 kr. á mánuði, þurfi 6.000 kr. í húsaleigubætur?

Herra forseti. Ég held að það sé mjög brýnt að taka á þessum enda velferðarkerfisins í heild sinni og líta á það hvað það er sem við viljum tryggja og hvað það er sem við höfum leiðst út í að tryggja. Allt kostar þetta. Það er nefnilega þannig, herra forseti, að guð almáttugur borgar ekki þessar bætur. Þær eru borgaðar af sveitarfélögunum með dýrum peningum skattgreiðenda. Tekið er útsvar af öllum skattgreiðendum í sveitarfélaginu og þeir eru látnir borga þetta. Það hefur aftur á móti þær afleiðingar stundum að fólk nennir ekki lengur að vinna, vegna þess hve skattbyrðin er orðin mikil. Það er neikvæða hliðin á medalíunni, herra forseti, að þessar félagslegu bætur til ríkra manna, leiða til þess að fólk veigrar sér við að vinna og veigrar sér við að standa undir þessu vegna þess hve skattbyrðin er orðin mikil. Þetta er sá vandi sem við stöndum frammi fyrir með slíkt velferðarkerfi og þetta er ekki eini hlutinn, ég get nefnt fullt af dæmum um velferðarkerfi ríkra. Nýjasta er náttúrlega þessar bætur til vel stæðra öryrkja. Þetta velferðarkerfi sligar atvinnulífið og efnahagslífið og veldur því að fólk hefur ekki sama vilja til að skaffa og að vinna.