Húsaleigubætur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:38:27 (6469)

2001-04-05 18:38:27# 126. lþ. 107.17 fundur 625. mál: #A húsaleigubætur# (réttur til bóta o.fl.) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:38]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir þessa yfirferð og fagna þeim upplýsingum að unnið sé í því að bæta ástandið í leiguhúsnæðismálum, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvað hann telji að taka muni langan tíma að leysa úr því neyðarástandi sem talað er um að ríki í húsnæðismálum fólks á leigumarkaði á höfuðborgarsvæðinu með þeim leiðum sem hæstv. ráðherra benti á og þeim samningaviðræðum sem hann hefur verið í undanfarið, síðast í dag eins og hann nefndi.

Það hefur komið fram í fréttum að einkaaðilar hafi einnig farið í að byggja leiguíbúðir eins og gerist í öðrum löndum. Það er ágætt en spurningin er: Hvað telur hæstv. ráðherra að það taki langan tíma að leysa þennan vanda þannig að þetta ástand ríki ekki hér áfram? Sömuleiðis tók ég ekki eftir því að hæstv. ráðherra svaraði því sem ég spurði um í ræðu minni áðan, um það hvort uppi væru áform um að fella niður skattlagningu á húsaleigubótum. Eru einhver áform uppi um það hjá hæstv. ríkisstjórn?