Erfðaefnisskrá lögreglu

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 18:54:54 (6477)

2001-04-05 18:54:54# 126. lþ. 107.18 fundur 616. mál: #A erfðaefnisskrá lögreglu# frv., dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[18:54]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel ekki að svo sé. Ég vil vekja athygli á því og ítreka að hér er aðeins um að ræða alvarlegustu brot sem kveðið er á um í hegningarlögum. En það er nú einu sinni þannig að tilraun til þess að fremja eitthvað af þessum brotum, alvarlegu brotum, er að sjálfsögðu refsiverð. Ég geri ráð fyrir að eðlilegt sé að setja fram þessar lagagreinar eins og fram kemur í athugasemdum um 4. gr. frv., það er í samræmi við refsirétt á Íslandi.

Þar að auki vakti ég athygli á því í framsögu minni áðan að ekki er gengið eins langt í þessu frv. og lagt er til í þeirri skýrslu nefndarinnar sem vann þetta mál og þar að auki göngum við mun skemur en líklega öll okkar nágrannalönd og ég tel að þetta sé mjög þarft mál. Það er ekki bara hjálpartæki fyrir lögreglu til þess að upplýsa um sakamál, hv. þm., heldur er það líka mjög mikilvægt til þess að hreinsa menn af grun.