Mörk Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæma suður og norður

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:11:30 (6483)

2001-04-05 19:11:30# 126. lþ. 107.20 fundur 628. mál: #A mörk Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæma suður og norður# frv., dómsmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:11]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á mörkum Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæma suður og norður. Með frv. er lagt til að mörkum Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæma suður og norður verði breytt til samræmis við þá breytingu sem varð á mörkum Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar með samningi milli sveitarfélaganna þann 28. febrúar sl. og staðfestur var af félmrn. þann 30. mars sl.

Samkvæmt samkomulagi Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar breyttust mörk sveitarfélaganna þannig að suðurhlíðar Úlfarsfells sem voru innan Mosfellsbæjar eru nú innan marka Reykjavíkur. Á landsvæði því sem um ræðir búa um 30 manns sem eiga nú kosningarrétt í Suðvesturkjördæmi. Nú hefur verið ákveðið að skipuleggja landið fyrir íbúðabyggð og atvinnusvæði og þykir nauðsynlegt að byggð þar fylgi Reykjavíkurkjördæmi.

Í 2. mgr. 6. gr. laga um kosningar til Alþingis er kveðið á um að þótt mörkum sveitarfélaga verði breytt þá haldist mörk kjördæma óbreytt. Samkvæmt 2. mgr. 129. gr. laganna verður ákvæðum um kjördæmamörk ekki breytt nema með samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi, sbr. 6. mgr. 31. gr. stjórnarskrárinnar.

Með frv. þessu er því lagt til að Alþingi samþykki breytingar á mörkum Suðvesturkjördæmis og Reykjavíkurkjördæma suður og norður til samræmis við samkomulag sveitarfélaganna. Ítrekað skal að breytingarnar öðlast ekki gildi nema Alþingi samþykki þær með 2/3 hluta atkvæða.

Herra forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frv. og legg til að því verði að lokinni umræðunni vísað til hv. allshn. og 2. umr.