Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:29:43 (6488)

2001-04-05 19:29:43# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:29]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég var í þeirri nefnd sem hæstv. dómsmrh. skipaði til þess að kanna umferðaröryggi og hvaða leiðir eru færar til þess að efla og bæta umferðaröryggi á vegum landsins. Einmitt þetta tiltekna mál, hvort ekki ætti að setja reglur um bann við notkun farsíma og setja þar af leiðandi í lög að fólk eigi að nota handfrjálsan búnað þegar það ekur, er ekki að ástæðulausu. Við veltum einmitt fyrir okkur í nefndinni m.a. hvort það væri jafnhættulegt að borða undir stýri eða setja kassettu í útvarpstæki. Það kann vel að vera að það sé áhættumikið. En þennan tiltekna þátt, þennan farsímaþátt sem er mjög hættulegur þegar fólk er að keyra, var hægt að einangra og sjá að það er beinlínis hættulegt að keyra og tala í símann um leið án þess að vera með handfrjálsan búnað. Þennan tiltekna þátt er hægt að niðurnjörva og segja: Með því að setja regur um handfrjálsan búnað við akstur bifreiða er hægt að fækka slysum. Þegar hægt er að beita reglum skynsamlega, að mínu mati, sem hafa það að markmiði og leiða að öllum líkindum af sér fækkun slysa þá get ég ekki sagt nei við slíkum reglum. Það er útilokað.