Umferðarlög

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 19:35:27 (6492)

2001-04-05 19:35:27# 126. lþ. 107.21 fundur 672. mál: #A umferðarlög# (farsímar, fullnaðarskírteini) frv., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[19:35]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir ábendingar hv. þm. við 1. umr. um frv. sem hér liggur fyrir til breytinga á umferðarlögum. Ég fagna því að stuðningur er við þau ákvæði frv. veita ungum ökumönnum aukið aðhald og vænti þess að þetta frv. fái skjóta afgreiðslu hér á þinginu.

Hins vegar hefur hv. þm. Pétur Blöndal vakið athygli á því varðandi 1. gr., um notkun farsíma og annars fjarskiptabúnaðar, að þar sé um að ræða afskipti stóra bróður og boð og bönn sem ekki séu til góðs.

Ég get tekið undir það með hv. þm. að boð og bönn geta vissulega verið til óþurftar. Það er alltaf spurning hversu langt á að ganga í því að hafa vit fyrir fólki. Það hefur verið reynt með áróðursherferðum og fræðslu að gera átak hér og þar til að reyna að efla umferðaröryggi. Því miður hefur árangurinn ekki verið nógu góður. Í umferðinni hafa orðið mjög alvarleg slys sem kostað hafa mannfórnir og haft alvarlegar afleiðingar að öðru leyti. Við þurfum auðvitað að sporna gegn þeirri þróun. Það er alveg ljóst.

Ef við lítum á atriði eins og öryggisbeltin, sem hafa verið nefnd í þessari umræðu, þá kom stóri bróðir einmitt að því máli. Hvar værum við stödd í dag ef skylda til þess að vera með öryggisbelti hefði ekki verið sett í lög?

Í skýrslu starfshópsins koma fram margvíslegar upplýsingar. Þar er m.a. fjallað um notkun farsíma í bifreiðum og gerð grein fyrir því í hvaða löndum lögum hefur verið breytt eða reglur verið settar í takt við ákvæði 1. gr. frv. Með leyfi virðulegs forseta vil ég fá að gera stuttlega grein fyrir því:

Í Danmörku gekk í gildi þann 1. júlí 1998 bann við notkun farsíma við akstur án handfrjáls búnaðar. Bannið nær einnig til annarra ökumanna en þeirra sem stjórna vélknúnum ökutækjum, þ.e. hjólreiðamanna og reiðmanna og í vissum tilvikum notenda hjólastóla.

Í Noregi gekk í gildi bann við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar þann 15. mars árið 2000. Önnur lönd í Evrópu hafa sett sérstök ákvæði í lög við notkun farsíma í bifreiðum. Má þar nefna bann á Ítalíu við notkun farsíma við akstur ef ekki er notaður handfrjáls búnaður. Í Sviss er bannað að nota farsíma án handfrjáls búnaðar á grundvelli reglna um að ætíð skuli a.m.k. önnur hönd vera á stýri. Í Frakklandi og Austurríki er að finna ákvæði um að önnur hönd skuli vera á stýri við akstur. Á Spáni og Portúgal er aðeins leyfilegt að nota handfrjálsan búnað við akstur og bannað er að slá inn símanúmer á handfrjálsan síma á ferð. Þá þarf að nota handfrjálsan búnað í Belgíu, Þýskalandi, Bretlandi, Grikklandi, Lúxemborg, Ítalíu, Póllandi, Búlgaríu, Slóveníu, Slóvakíu, Indlandi, Suður-Afríku, Egyptalandi og reyndar Malasíu líka. Fleiri lönd eru nefnd til. Í Finnlandi, Svíþjóð, Hollandi og Bretlandi er í athugun að koma á banni við notkun farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri.

Það er mikið af bönnum í þessari upptalningu en það getur ekki annað verið en menn hafi séð af rannsóknum á umferðinni, umferðaróhöppum og alvarlegum slysum að tengsl séu á milli notkun farsíma við akstur og þeirra slysa sem verða í umferðinni.

Ég tel alveg ljóst að við þurfum að gera samstillt átak hér á landi til að efla umferðaröryggi og snúa við þeirri óheillaþróun sem hefur átt sér stað varðandi umferðarslysin. Frv. sem við ræðum hér er einmitt þáttur í því.