Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:17:27 (6503)

2001-04-05 20:17:27# 126. lþ. 107.30 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:17]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, með síðari breytingum.

Eins og kemur fram í grg. með frv. er með því lögð til sú breyting á lögum um virðisaukaskatt að tímabundið, þ.e. vegna tímabilsins 1. september 2000 til 31. desember 2003, verði heimilt að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er af kaupverði eða leiguverði hópferðabifreiða, fyrir 18 farþega eða fleiri, sem nýskráðar eru á tímabilinu og búnar eru EURO2-aflvélum eða öðrum sambærilegum aflvélum. Frumvarpið er byggt á öryggis- og umhverfissjónarmiðum og hefur það að markmiði að auðvelda rekstraraðilum hópferðabifreiða að endurnýja bifreiðaflota sinn.

Engum ætti að dyljast að hópferðabifreiðafloti landsmanna er orðinn óeðlilega gamall og hefur á undanförnum árum myndast rík þörf til endurnýjunar í greininni. Nú er svo komið að meðalaldur hópferðabifreiða er í kringum 17 ár og stendur það þessari grein ferðaþjónustu fyrir þrifum. Erfið rekstrarstaða þessara aðila hefur leitt til þess að í hópferðaakstri eru í notkun gamlar hópferðabifreiðar sem ógna umferðaröryggi á vegum landsins eins og dæmi hafa því miður sannað.

Auk þess að ógna umferðaröryggi er mengun frá hópferðabifreiðaflotanum mikil. Í frv. er endurgreiðsluheimildin bundin við umhverfisvænar aflvélar samkvæmt svokölluðum EURO2-staðli eða sambærilegar vélar sem menga mun minna en þær aflvélar sem nú eru víðast í notkun. Markmið frumvarpsins er því í stuttu máli að stuðla að endurnýjun hópferðabifreiða til að ná fram jákvæðum áhrifum í ferðaþjónustu sem og öryggis- og umferðarmálum. Ef frv. verður að lögum hefur það hvetjandi áhrif á rekstraraðila til að flytja inn umhverfisvænni hópferðabifreiðar samkvæmt þeim skilmálum sem settir eru í frumvarpinu. Endurgreiðsluheimildin mun þó að sjálfsögðu einnig ná til nýrri umhverfisstaðla, t.d. svokallaðs EURO3-staðals.

Auk þessara atriða hefur verið bent á að samkeppni við erlenda aðila sem flytja bifreiðar sínar til landsins yfir háannatímann til að aka erlendum ferðamönnum hafi aukist á undanförnum árum og gert innlendum rekstraraðilum hópferðabifreiða erfitt fyrir. Ef frv. verður að lögum mun það jafna samkeppnisskilyrði milli þeirra innlendu og erlendu aðila í sömu starfsemi hérlendis.

Til þess að koma í veg fyrir skyndileg áhrif á innflutning og óeðlilegar sveiflur hjá rekstraraðilum er í frumvarpinu lagt til að endurgreiðsluheimildin gildi til ársloka 2003. Miðað er við september árið 2000 með hliðsjón af því að á þeim tímapunkti er mesti annatíminn í tengslum við ferðamannaiðnaðinn og hópferðaakstur að baki og rekstraraðilar í greininni farnir að hefja undirbúning að nýju rekstrarári.

Endurgreiðslunni er ekki aðeins ætlað að taka til bifreiða sem fluttar eru inn fullbúnar heldur einnig til smíði slíkra bifreiða að fullu eða að nokkru leyti hér á landi.

Rétt er að árétta að í frumvarpinu er tekið fram að endurgreiðsluheimildin nái ekki til almenningsvagna (strætisvagna) enda er tillögunni eingöngu ætlað að koma til móts við þann umhverfis- og öryggisvanda sem stafar af úreltum hópferðabifreiðaflota landsins. Með almenningsvögnum er átt við almenningsvagna sem eru í áætlunarferðum samkvæmt fyrirframákveðinni tímaáætlun í þéttbýli gegn fyrirframákveðnu gjaldi.

Samkvæmt upplýsingum frá samtökum ferðaþjónustunnar mun meðalverð á nýrri hópferðabifreið, fyrir 18 farþega eða fleiri, vera á bilinu 15--20 millj. kr. Samkvæmt frumvarpinu mun endurgreiðsla virðisaukaskatts af 18 millj. kr. hópferðabifreið nema tæpum 3 millj. kr. Árið 2000 voru fluttar inn 17 nýjar rútur og mun samkvæmt þeim tölum árleg endurgreiðsla virðisaukaskatts nema u.þ.b. 50 millj. kr. Gera verður þann fyrirvara við þessar tölur að erfitt er að sjá fyrir hversu mikið innflutningur hópferðabifreiða eykst verði frumvarpið að lögum en gera verður ráð fyrir töluverðri aukningu.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fjármálaráðherra setji nánari reglur um framkvæmd endurgreiðslunnar.

Ég legg til, herra forseti, að frv. verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.