Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 05. apríl 2001, kl. 20:25:11 (6505)

2001-04-05 20:25:11# 126. lþ. 107.30 fundur 686. mál: #A virðisaukaskattur# (hópferðabifreiðar) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 107. fundur, 126. lþ.

[20:25]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér eru engar tilskipanir á ferð. Hér er einfaldlega um að ræða venjulegt frv. sem lagt er fyrir Alþingi til samþykktar eða synjunar eða breytinga eftir atvikum. En það er alveg rétt hjá hv. þm. að að vissu leyti er um óvenjulegt mál að ræða. Það er frekar óvenjulegt að fara þessa leið til að koma til móts við ákveðna aðila sem eru í erfiðleikum.

Þetta er að sjálfsögðu gert í góðu samráði við greinina. Það er alveg ljóst að það er eitthvað mikið að í greininni þegar svo er ástatt um tækjaflota eins og raun ber vitni, og ríkisvaldið er fyrir sitt leyti tilbúið til að koma til móts við þá aðila á þennan hátt í vissan tíma til þess að leggja sitt af mörkum.

Ég fagna síðan almennum hugleiðingum þingmannsins um skattheimtu og virðisaukaskatt. Auðvitað væri það ákjósanlegt ef hægt væri að lækka virðisaukaskattinn eins og flesta aðra skatta. Hann er reyndar langstærsti tekjustofn ríkisins. Af honum fáum við um það bil 40 kr. af hverjum 100 sem renna í ríkissjóð þannig að það er meira en að segja það að ætla að lækka hann svo einhverju nemi en ég bendi þó á að það var gert varðandi tiltekna vöru fyrir nokkrum árum, að því er varðar matvæli, og sú breyting gaf, held ég, afskaplega góða raun og það hefur ábyggilega hjálpað til að draga úr því sem hann kallaði svarta atvinnustarfsemi. Við erum áreiðanlega bandamenn í þessu máli eftir því sem svigrúm fyrirfinnst í því efni.