Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:34:11 (6518)

2001-04-06 11:34:11# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:34]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson segist ósammála mér um að verðbólguskot geti verið af hinu góða. Hann segist telja það heppilegri leið að ríkið eða ríkissjóður, sé þörf á að setja fjármagn inn í atvinnulífið, taki þá lán. Ég hallast að þeirri skoðun líka, að það sé heppilegri leið en sú gamla að prenta fleiri seðla.

Það sem ég finn að og vara við er að þeir afsali sér stjórntækjum og bindi sig á höndum og fótum með lagasetningum. Við erum að gera það á einu sviði. Það er verið að binda í landslög að verðstöðugleiki skuli tryggður og ákveðinni stofnun sé falið það verk.

Mér finnst verðstöðugleiki geta verið mjög æskilegt markmið. Mér finnst verðbólga af hinu illa. En við tilteknar aðstæður getur verið nauðsynlegt að forgangsraða. Mín forgangsröðun lýtur fyrst og fremst að því að styðja velferðarþjóðfélagið og atvinnustigið. Það getur verið nauðsynlegt, ég heyri að ég og hv. þm. erum sammála um það, að pumpa fjármagni út í atvinnulífið við tilteknar aðstæður til að tryggja þessi markmið.

Ég er ekki viss um að okkur greini á í grundvallaratriðum. Ég er eingöngu að finna að því að við séum með þessum hætti að festa okkur með lagasetningu. Ég tel mikilvægt að almannavaldið og fulltrúar þess hafi sem flest stjórntæki að grípa til. Síðan er önnur spurning hvernig þeim er beitt.