Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 11:36:22 (6519)

2001-04-06 11:36:22# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[11:36]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki sammála því, það kom fram í mínu máli áðan, að nauðsynlegt sé að eiga þann möguleika að skrifa út af tékkaheftinu í Seðlabankanum. Menn geta valið aðrar leiðir en þá.

Ég held líka að stjórnvöld verði á hverjum tíma að setja markmið og fela Seðlabankanum að framfylgja þeim. Það þýðir í raun að auðvitað geta ríkisstjórn á hverjum tíma og Alþingi tekið ákvörðun um að breyta þessum markmiðum tímabundið, vegna aðstæðna í þjóðfélaginu sem menn telja svo mikilvægar að þessi markmið verði að víkja fyrir þeim. Það er hins vegar pólitísk ákvörðun sem menn þurfa að koma með inn á Alþingi og ríkisstjórnin þarf þá að lýsa því sérstaklega yfir að hún ætli sér tímabundið að víkja frá þessum markmiðum. Það er að mínu viti hægt að gera.

Ég held að þau markmið sem þarna eru sett séu skynsamleg. Ég endurtek hins vegar að menn þurfa samt sem áður að horfa nægilega langt fram í tímann og kippa sér ekki upp við það þó að á einhverjum tímum verði hærri verðbólga en þarna er vísað til.