Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:02:17 (6524)

2001-04-06 12:02:17# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að á köflum hefur farið af stað hálfgerður skrípaleikur þegar staða seðlabankastjóra hefur verið auglýst og veitt. Auðvitað á að taka af öll tvímæli í þeim efnum. Ég hefði hins vegar talið skynsamlegra að fara hina leiðina, þ.e. að lögbinda að staðan skuli auglýst og að fram fari faglegt mat á umsækjendum í þessi mikilvægu störf.

Mér er ljóst að það er ekki í lögum um Seðlabankann hvernig staðið skuli að því að leggja fram fjárlög íslenska ríkisins. Það er rétt hjá hæstv. forsrh. að þær áætlanir sem lagðar hafa verið fram og jafnvel samþykktar hafa haft tilhneigingu til að þenjast út. Þingmenn mættu beita meiri ögun í umgengni og viðhorfum til áætlana sem gerðar hafa verið og samþykktar þinginu. En þegar við setjum okkur langtímamarkmið í efnahagsmálum, þarna erum við að setja markmið til mjög langs tíma, þá sé ég ekki annað en þróun fjárlaga íslenska ríkisins skipti þar verulega máli, ekki bara ríkisins heldur sveitarfélaga. Það er í lögum að sveitarfélag skuli gera þriggja ára áætlanir. Mér fyndist það eðlileg þróun í framhaldi af þeim markmiðum sem hér eru sett að samhliða væru lögð fram frumvörp þess efnis að við gerð fjárlaga hvers árs skyldi jafnframt birt þriggja ára áætlun. Það mundi örugglega styrkja efnahagsstjórn landsins í framtíðinni og koma til góða þeim stofnunum sem ríkið rekur hverju sinni. Ég tel þetta mikilvægt en geri mér auðvitað grein fyrir því að þessi áætlun yrði sjálfsagt endurskoðuð, a.m.k. á fjögurra ára fresti. Það er hins vegar eðli áætlana enda er ég ekki að tala um að þær séu formlega samþykktar.