Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:09:22 (6528)

2001-04-06 12:09:22# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:09]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég er sammála hv. þm. um að nauðsynlegt sé að vel sé ráðið til þessara starfa. Ágreiningur minn við hv. þm. lýtur að því að ég tel að auglýsing sé ekkert hjálpartæki þegar kemur að stöðu af þessu tagi. Ég held að menn eigi að vera hreinskilnir og játa að sumar stöður eru þessa eðlis. Hið sama hlýtur að gilda hér á landi og annars staðar í heiminum. Slíkar stöður eru þess eðlis að það á ekki við að þær séu auglýstar. Aðilar sem ákváðu að auglýsa viðkomandi stöðu gerðu ekkert með þær auglýsingar, þó að þeir ákvæðu sjálfir að auglýsa til að fá klapp á bakið einhvers staðar fyrir að vera framsýnir og þess háttar.

Ég held að við eigum bara að viðurkenna að sumar stöður eru þess eðlis að í þær eigi ekki að ráða eftir auglýsingum. Það hefur ekki verið gert, jafnvel þó að menn hafi auglýst, og það er hvergi gert. Ég tel eðlilegt að hafa þar sama fyrirkomulag og annars staðar. Það er engin trygging fyrir því að hæfari menn fáist til starfa af þessu tagi þó að starfið sé auglýst.

Hitt er annað mál, sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson nefndi, hvort setja eigi upp einhverjar reglur um hverjir fái að sækja um slíkar stöður, sækjast eftir slíkum stöðum og vera ráðnir í slíkar stöður. Ég veit að nokkrir hagfræðingar hafa viljað að slíkar stöður yrðu klæðskerasaumaðar utan um hagfræðinga. Ég tel að það eigi ekki við um Seðlabankann. Ég held að þar gildi það sama og annars staðar í heiminum. Góðir og gegnir hagfræðingar geta haft hæfileika til að stýra þessum stofnunum en þar geta einnig komið til aðrir þættir. Ég tel ekki að það eigi að klæðskerasauma þessi störf sérstaklega utan um hagfræðinga heldur eigi allir að geta komið að því máli. Hins vegar verður það að vera mat þeirra sem ráða lyktum þeirra mála að í starfið veljist hæfir menn. Það skiptir sérstaklega miklu þegar áhrif Seðlabankans eru aukin.