Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:12:32 (6530)

2001-04-06 12:12:32# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:12]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil ekki að menn misskilji mig. Ég tel það almenna og góða reglu að stöður séu auglýstar. Ég tók til að mynda upp þá reglu þegar ég var borgarstjóri, að neita mönnum um að sækja um með nafnleynd vegna þess að ég taldi að þetta ætti að vera öllum opið, ljóst og skýrt. Ég var varaður við því og mér sagt að fjöldi manna mundi ekki sækja um ef nafnleynd yrði rofin. Það gerðist aldrei því að ég lét þá vita að nafnleynd yrði rofin og það reyndist vel. Almennt séð tel ég að það eigi að auglýsa stöðu en ég tel líka að á því geti verið undantekningar. Það á við um stöðu af þessu tagi. Ég tel að hvort tveggja reynslan og verklagið annars staðar sanni að það á við í þessum efnum að slíka stöðu eigi ekki að auglýsa.