Seðlabanki Íslands

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:18:30 (6534)

2001-04-06 12:18:30# 126. lþ. 108.18 fundur 675. mál: #A Seðlabanki Íslands# (heildarlög) frv., forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:18]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil taka fram að ég var ekki endilega að skrifa undir að það væri góð ráðstöfun að fjölga seðlabankastjórum í Svíþjóð úr þremur í sex. Ég var bara að segja að þessi tilhneiging var fyrir hendi.

Ég hlýt að vekja athygli á því líka, af því að menn eru að tala um atgervi sem þurfi að vera til staðar gagnvart ákvörðunum af þessu tagi, að það vekur athygli manns að fyrir 20--30 árum var það sérstakt keppikefli manna að komast að í Seðlabankanum, til að mynda unga hagfræðinga og slíka. Nú gengur mjög erfiðlega að fá slíka menn í vinnu í Seðlabankann og/eða halda þeim þar eftir að þeim áskotnast reynsla vegna þess að við borgum verr en þær stofnanir sem eru á markaðnum og er þetta heilmikið áhyggjuefni. En þannig er þetta nú og reyndar afar flókið að komast út úr þessum vanda. En þetta hefur maður horft upp á í þessum ágæta banka.