Leigubifreiðar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 12:42:25 (6541)

2001-04-06 12:42:25# 126. lþ. 108.19 fundur 633. mál: #A leigubifreiðar# (heildarlög) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[12:42]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég er kominn út á nokkuð hálan ís þar sem ég er ekki sérfræðingur í leigubílaakstri í Svíþjóð. Auðvitað má segja að hægt sé að hafa eftirlit eða gera strangar kröfur til þeirra sem taka að sér akstur leigubíla. Samkvæmt því fyrirkomulagi sem við búum við núna yrði það ráðuneytið eða Vegagerðin, eins og lagt er til í þessu frv.

Við búum hins vegar við fyrirkomulag þar sem ábyrgðin er hjá leigubílastöðvunum. Þær hafa gert kröfur til þeirra sem aka á þeirra vegum. Það skiptir að sjálfsögðu máli að notandinn geti gengið að því sem vísu að heiðvirt fólk starfræki þessa þjónustu. Ef ekkert eftirlit er fyrir hendi er sú vörn ekki fyrir hendi heldur. Spurningin er hvort við viljum að eftirlitið sé hið innra eftirlit fyrirtækisins eða eftirlit á vegum ríkisins, ráðuneytis eða Vegagerðarinnar. Ég held að hitt fyrirkomulagið sé betra.

Ég get alveg sagt reynslusögur af leigubílaakstri í Svíþjóð. Þær eru ekki góðar. Ég hafnaði leigubíl sem var sprottinn upp úr hinum frjálsa markaði og ekki háður innra eftirliti stóru stöðvanna sem hafa sinnt þessari þjónustu í Svíþjóð. Í því tilviki var verðlagið langt umfram það sem ég átti að venjast.

Ég er ekki viss um að rétt sé að halda inn í frumskóginn á þessu sviði. Ég er ekki sannfærður um það.