Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:30:37 (6545)

2001-04-06 13:30:37# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), Flm. LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:30]

Lúðvík Bergvinsson:

Virðulegi forseti. Tilefni þessarar umræðu er rannsókn yfirvalda á flugslysi sem átti sér stað í Skerjafirði 7. ágúst í fyrra. Fátt er mikilvægara en að traust ríki milli almennings og flugmálayfirvalda að því er varðar almennt flugöryggi í landinu. Í umfjöllun undanfarna daga hefur margt komið fram sem bendir til að úr þessu trausti hafi dregið undanfarið.

Hlutverk Alþingis í þessu er mikilvægt. Í fyrsta lagi tekur Alþingi ákvörðun um fjárveitingar til flugöryggismála auk þess sem Alþingi hefur eftirlitsskyldu með því að stjórnvöld séu að vinna sín verk í samræmi við lög og reglur. Enn fremur er rétt að taka fram að minni hlutinn í samgn. hefur ítrekað óskað eftir því að fulltrúar rannsóknarnefndar flugslysa komi á fund hennar og skýri sjónarmið sín en við því hefur ekki verið orðið.

Eitt af því sem vakið hefur sérstaka eftirtekt í umræðunni um rannsókn þessa slyss er hversu langan tíma tók að ljúka skýrslu rannsóknarnefndar flugslysa þegar efni hennar er skoðað. Þá hefur verið vakin athygli á því að skýrslan hafi tekið verulegum breytingum frá frumútgáfu hennar 29. desember þar til lokaskýrsla lá fyrir 23. mars sl.

Það er eðli rannsóknar að eftir því sem henni vindur fram eykst það upplýsingamagn sem aflað er. Hið gagnstæða virðist hafa átt sér stað í þessu tilviki. Við samlestur skýrslnanna er margt sem bendir til þess að lokaskýrslan hafi verið ritskoðuð og úr upphaflegu skýrslunni tekin atriði þar sem íslensk flugmálayfirvöld eru gagnrýnd eða velt upp spurningum og efasemdum um kerfi flugmálayfirvalda. Máli mínu til stuðnings vil ég nefna nokkur dæmi um hvernig skýrslan breyttist í meðförum nefndarinnar.

Í fyrsta lagi er sláandi að breytingar er að finna í niðurstöðukafla lokaskýrslu þar sem orsakaþáttum er fækkað úr ellefu í fimm. Í frumskýrslu er nefnt að vantað hafi mikilvæg gögn sem hefðu átt að liggja fyrir þegar flugvélin fékk lofthæfisskírteini og Flugmálastjórn átalin fyrir það. Þetta er með öllu horfið úr lokaskýrslu. Svo virðist sem saga flugvélanna hafi verið ritskoðuð frá frumskýrslu til lokaskýrslu. Áberandi er hvernig eignarhald bandarískra dómsyfirvalda er þurrkað út úr frumskýrslunni eins og upptaka og uppboð vegna fíkniefnamisferlis hafi aldrei átt sér stað. Hvergi í endanlegri skýrslu er greint frá því að sá er keypti flugvélina á uppboði í Bandaríkjunum seldi vélina fyrirtæki í eigin eigu sem seldi vélina áfram öðru fyrirtæki í eign sinni áður en hann fékk vélina skráða á Íslandi.

Umfjöllunin um hreyfil flugvélarinnar var breytt og mikilvægi hans minnkað. Fram koma upplýsingar um breyttan sögulausan hreyfil. Þar má nefna að frá frumskýrslu til lokaskýrslu breytist hreyfillinn m.a. úr því að vera sagður 300 hestöfl í það að vera 285 hestöfl.

Minna má á að því hefur verið haldið fram að rannsóknarnefndin hafi afhent hreyfilinn þriðja aðila fjórum dögum fyrir brotlendingu og því hafi þetta grundvallarrannsóknargagn ekki verið til staðar eftir þann tíma. Hreyfillinn var því ekki í vörslu rannsóknarnefndarinnar á þeim tíma þegar hann tekur þessum breytingum í skýrslunni, þ.e. frá 29. desember til 23. mars. Enn fremur kemur hvergi fram í skýrslunni hvaða sérfræðingur rannsakaði hreyfilinn fyrir rannsóknarnefnd flugslysa. Því virðist mega draga þá ályktun að engin sjálfstæð rannsókn hafi farið fram. Eini sérfræðingurinn sem nefndur er á nafn í skýrslunni er viðhalds- og tæknistjóri flugrekandans og hann er enn fremur talinn vera fulltrúi flugrekanda á vettvangi.

Í fimmta lagi kemur fram í frumskýrslu að engar dagbækur eða leiðabækur fylgdu flugvélinni aðrar en þær sem búnar höfðu verið til í Bandaríkjunum fyrir ferðina til Íslands. Þetta hefði að sjálfsögðu átt að koma til skoðunar þegar lofthæfisskírteini var gefið út.

Hér er ekki um tæmandi talningu að ræða á þeim atriðum sem hafa tekið breytingum í meðförum nefndarinnar án þess að það sé að nokkru leyti skýrt. Hér er aðeins vitnað til nokkurra dæma. Öll bera þau þess merki að vera þess eðlis að ástæða hefði verið til að greina þau betur auk þess sem þau eru eins og saga flugvélarinnar til þess fallin að varpa frekari ljósi á málið.

Það er ekki hlutverk okkar alþingismanna að fella dóma um þessi atriði. Hlutverk okkar er fyrst og fremst að sjá til þess að yfirvöld vinni vinnu sína og að ekki verði trúnaðarbrestur milli yfirvalda og almennings í landinu þegar kemur að flugöryggismálum. Fátt er mikilvægara nú en að flugyfirvöld endurheimti trúnað almennings á nýjan leik. Það er mat mitt að rannsókn flugslysanefndar hafi ekki þann trúverðugleik sem hún þarf að hafa. Til þess að endurvinna glataðan trúnað þurfa að koma til nýjar og frekari rannsóknir. Það er eðlileg krafa. Því vil ég beina tveimur spurningum til hæstv. samgrh.:

1. Mun samgrh. endurskoða þá ákvörðun sína að fá erlenda óvilhalla viðurkennda aðila til að framkvæma nýja rannsókn á flugslysinu 7. ágúst sl. og skýrslugerð rannsóknarnefndarinnar?

2. Mun samgrh. beita sér fyrir því að erlendir, óvilhallir, viðurkenndir sérfræðingar geri úttekt á eftirlitskerfi Flugmálastjórnar með flugöryggi landsmanna?