Skipulag flugöryggismála

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 13:47:33 (6550)

2001-04-06 13:47:33# 126. lþ. 108.94 fundur 461#B skipulag flugöryggismála# (umræður utan dagskrár), ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[13:47]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Það yrði mikill vandi í slíkri umræðu að skilja á milli ákveðinna slysa í rannsókn flugslysanefndar og almennra atriða í flugreglum og það er mikilvægt að gera það í þessu tilviki. Ef grafið hefur verið undan trausti í flugi á Íslandi undanfarin missiri þá er það kannski að mörgu leyti vegna óvandaðrar umfjöllunar í fjölmiðlum og ótímabærra yfirlýsinga og athugasemda af hálfu ýmissa stjórnmálamanna.

Íslendingar fara ekki eingöngu eftir reglum Alþjóðaflugmálastofnunarinnar heldur ganga þeir lengra og eru í fararbroddi öryggismála í Evrópu. Flugöryggissamtök Evrópu eru samtök allra flugmálastjórna efnahagsbandalagslanda, EES og fleiri landa. Þar að auki eru Íslendingar í röð fremstu þjóða Evrópu í að ganga eftir og fylgja eftir reglum sem eru sífellt strangari. Samgrh. sendi Flugmálastjórn bréf þar sem hnykkt er á atriðum sem fjallað er um í almennum atriðum í skýrslu flugslysanefndar um hið hörmulega flugslys í Skerjafirði í ágúst í fyrra. Þessar ábendingar hafa ýmsar því miður verið lesnar eins og um nýjungar væri að ræða og þetta hefur valdið misskilningi.

Gæðakerfið sem talað er um er í fullum undirbúningi og hefur verið í undirbúningi undanfarin ár. Alþjóðaflugmálasamtökin telja að það taki fimm ár að koma því kerfi á. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að flýta því. Það kann líka að orka tvímælis að það gangi of hratt fram því að um er að ræða algera viðhorfsbreytingu í öllu er lýtur að nákvæmni, pappírsvinnu og öðrum atriðum sem lúta að flugtæknilegum málum.

Formlegar úttektir ganga mjög formlega fyrir sig hjá loftferðaeftirlitinu. JAR-OPS er reglugerð um flutningaflug. Hún gengur eftir og er ætlað að flýta. Viðhaldsaðilar eru undir mjög öflugu kerfi þannig að í heild standa þessi mál á Íslandi mjög framarlega miðað við allt sem þekkist í heiminum. En það má fagna því að nú er ákveðið að flýta því að þessar reglur gangi fram og það skiptir miklu máli.