Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:10:57 (6556)

2001-04-06 14:10:57# 126. lþ. 108.20 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv., samgrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um fólksflutninga, vöruflutninga og efnisflutninga á landi.

Í frv. er lagt til að almennar kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 13/1999 gildi nú einnig um vöruflutninga og efnisflutninga. Þó skal tekið fram í upphafi að lögin taka ekki til flutnings á hættulegum efnum.

Gildandi lög um skipulag á fólksflutningum með hópferðabifreiðum eru nr. 13/1999 og lög um vöruflutninga á landi eru nr. 47/1994. Í ljósi reglna sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu telur ráðuneytið ástæðu til þess að endurskoða þessi tvenn lög í heild og fella saman í einn lagabálk. Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi þessarar greinar, m.a. hefur vöruflutningaakstur og akstur með ferðamenn aukist verulega. Aftur á móti hefur afkoma fyrirtækja í sérleyfisakstri farið versnandi og farþegum fækkað.

Ein meginbreyting laganna felst í því að almennar kröfur sem lögfestar voru með lögum nr. 13/1999 gilda nú einnig um vöruflutninga og efnisflutninga. Þó skal tekið fram að enn gildir reglugerð nr. 984/2000, um flutning á hættulegum efnum sem sett er með stoð í umferðarlögum, nr. 50/1987.

Við það að lögin ná einnig til vöruflutninga verða vöruflutningafyrirtæki að hafa svokallað almennt leyfi. Í leyfi þessu felst eftirfarandi:

1. Að fyrirtæki hafi fullnægjandi fjárhagsstöðu eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.

2. Forsvarsmaður fullnægi skilyrðum um starfshæfni eins og nánar er kveðið á um í reglugerð.

3. Forsvarsmaður hafi ekki verið dæmdur til refsivistar eða framið alvarleg eða ítrekuð brot á lögum og reglugerðum sem um starfsgreinina gilda.

Þetta þýðir að ábyrgð stjórnenda fyrirtækja á þessum sviðum er gerð skýrari. Þessi ákvæði eru óbreytt frá gildandi lögum nr. 13/1999, að því viðbættu að nú taka þau einnig til stjórnenda vöruflutninga- og efnisflutningafyrirtækja.

Önnur meginbreyting laganna snýr að fólksflutningunum. Með frv. er skýlaus heimild Vegagerðarinnar fyrir því að gera svokallaða þjónustusamninga við sérleyfishafa. Jafnframt er gert ráð fyrir að núverandi sérleyfisfyrirkomulag haldist að mestu óbreytt fram til 1. ágúst 2005. Eftir þann tíma er gert ráð fyrir að öll sérleyfi verði boðin út. Þó er heimilt, séu fyrir því góð rök, að bjóða út ákveðin sérleyfi strax við gildistöku laganna eða þegar núverandi sérleyfi renna út í júlí 2002.

Ástæða þess að gefinn er þetta langur aðlögunartími þar til sérleyfi verða boðin út er fyrst og fremst sú að fyrirtæki í sérleyfisrekstri eru mörg hver mjög illa stödd fjárhagslega. Útboð árið 2002 gæti spillt fyrir uppbyggingu greinarinnar og yrðu almenningssamgöngum ekki til framdráttar.

Undanfarið hefur staðið yfir átak fyrir tilstilli samgrn. og Vegagerðarinnar sem felst í því að hvetja fyrirtæki í þessari grein til hagræðingar og samstarfs. Gerðir hafa verið þjónustusamningar við mörg fyrirtækjanna sem gilda til júlí árið 2002. Þetta átak hefur reynst mögulegt vegna tvöföldunar framlags til málaflokksins í síðustu vegáætlun sem nú er 100 millj. kr.

Þá er gert ráð fyrir því í frv. að starfræksla sendibíla, sem áður féllu undir lög um leigubigreiðar, falli undir almenn ákvæði frv. Þetta þýðir að ekki verður lengur stöðvarskylda fyrir sendibifreiðar.

Í áliti umboðsmanns barna um skólaakstur frá 23. nóvember 1998 er lögð áhersla á að til þess að tryggja ákveðna samræmingu í skólaakstri á vegum sveitarfélaga sé nauðsynlegt að settar verði lágmarksreglur um tilhögun skólaaksturs hér á landi. Þetta álit umboðsmanns barna hefur verið haft til hliðsjónar við samningu frv. Nú er lagaheimild fyrir því að Vegagerðin geti gert sérstakar kröfur til aðbúnaðar skólabarna.

Í áliti umboðsmanns barna um skólaakstur frá 23. nóvember 1998 er lögð áhersla á að til þess að tryggja ákveðna samræmingu í skólaakstri á vegum sveitarfélaga sé nauðsynlegt að settar verði lágmarksreglur um tilhögun skólaaksturs hér á landi. Þetta álit umboðsmanns barna hefur verið haft til hliðsjónar við samningu frv. Nú er lagaheimild fyrir því að Vegagerðin geti gert sérstakar kröfur til aðbúnaðar skólabarna.

Í áliti samkeppnisráðs frá 23. apríl 1998 er fjallað um erindi Félags hópferðaleyfishafa um mismunun í starfsskilyrðum hópferðaleyfishafa og sérleyfishafa. Samkeppnisráð beindi tilmælum til samgönguráðherra í fjórum liðum. Í frv. þessu er tekið á öllum þeim atriðum sem fram komu í álitinu.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frv. verði að lokinni umræðunni vísað til 2. umr. og hv. samgn.