Fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:33:45 (6560)

2001-04-06 14:33:45# 126. lþ. 108.20 fundur 634. mál: #A fólksflutningar, vöruflutningar og efnisflutningar á landi# (heildarlög, EES-reglur) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:33]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Með almannaþjónustu í samgöngunum á ég við að íbúar hvar sem er á landinu viti hvaða almenningssamgöngur ætlunin er að þeim standi til boða og þeir geti gengið að því vísu að sú þjónusta verði varin. Íbúar í Ólafsvík, á Þórshöfn, Höfn í Hornafirði eða hvar sem er gætu treyst því að almannaþjónusta eins og almenningssamgöngur sé ekki bara háð því hvort einhver treysti sér til að bjóða í hana á þeim skilmálum sem settir eru. Þá tæki kannski enginn að sér þá þjónustu. Hér er um að ræða almannaþjónustu sem við eigum að gæta þess að veitist íbúum landsins. Síðan er sjálfsagt að leita hagkvæmustu leiða til að veita þjónustuna, bæði til að lækka kostnað og tryggja öryggi og gæði þjónustunnar.

Málið er nefnilega, herra forseti, að við höfum bútað þessa almannaþjónustu í einstaka flokka og þeir eru síðan skoðaðir aðgreindir. Áður fór pósturinn með rútunum. Ég er ekki að segja að það sé nauðsynlegt en þegar við bútum þjónustuna niður og látum síðan hvern bút standa undir sér, þá er afleiðingin sú að byggðirnar missa póstinn, missa síma og viðgerðarþjónustuna og missa rútuferðirnar. Öllu þessu geta þær staðið frammi fyrir. Þess vegna er brýnt að skilgreina almannaþjónustu og veita hana á sem hagkvæmastan og bestan hátt. Mér finnst að hæstv. ráðherra megi taka það skýrar fram ef hann er á þeirri skoðun.