Lögskráning sjómanna

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:45:04 (6564)

2001-04-06 14:45:04# 126. lþ. 108.21 fundur 635. mál: #A lögskráning sjómanna# (breyting ýmissa laga) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:45]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Mig langar til að fræðast örlítið um þetta frv., þ.e. um 3. gr. þess. Þar er talað er um að ekki skuli gefa út haffærisskírteini til skips sem er minna en 20 brúttórúmlestir nema fyrir liggi yfirlýsing tryggingarfélags um áhafnatryggingu.

Nú er það þannig að haffærisskírteini er oft gefið út áður en skip fer í notkun. Það má eiginlega lýsa þessu með því að við ætluðum að styðjast við sambærilegar reglur um bíla, þá mætti ekki láta skoða bíl öðruvísi en það lægi fyrir hver ætti að vera bílstjórinn. Mér þykir líklegt að það geti komið upp vandamál í kringum svona kröfur.

Mig langar til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvernig menn líti á þetta. Verður þá ævinlega að liggja fyrir --- það hlýtur að vera og ég álykta sem svo --- hvaða áhöfn ætlar að vera á þessu skipi? Nú er haffæri yfirleitt veitt til eins árs í einu. Mörg af þessum skipum eru notuð hluta úr árinu. Sum eru meira að segja notuð af öðrum mönnum seinni hluta ársins en fyrri hluta ársins. Á þeim eru mismunandi margir skipverjar eftir því til hvers er verið að nota skipin. Mér finnst að það þurfi að liggja fyrir hvað átt er við með áhafnatryggingu. Er það einhver almenn yfirlýsing tryggingafélags um að það tryggi áhöfn viðkomandi skips? Liggur þá fyrir að tryggingafélag sé tilbúið að taka ábyrgð á því? Eða er meiningin að gefa út haffærisskírteini í nokkra mánuði á skip, vegna þess að það muni ljúka vertíð að vori og aðrir sjómenn verði þá um borð?

Þetta eru spurningar sem ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari.