Lögskráning sjómanna

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 14:50:41 (6567)

2001-04-06 14:50:41# 126. lþ. 108.21 fundur 635. mál: #A lögskráning sjómanna# (breyting ýmissa laga) frv., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að frv. sem við ræðum hér sé að flestu leyti gott. Það fær auðvitað yfirferð í nefnd.

Einu velti ég þó fyrir mér, þ.e. varðandi lögskráningu eða réttara sagt undanþágu frá ákvæðum laganna um að lögskrá áhafnir hafnsögubáta, dráttarbáta og björgunarskipa. Það kemur til vegna þess að þetta eru skip sem aðstoða önnur skip. Í kringum slíka starfsemi geta komið upp atvik og orðið tjón sem er bótaskylt. Þá kemur gjarnan upp deila á milli manna hvort allir pappírar og öll formlegheit hafi verið í lagi. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki þurfi að huga sérstaklega að því hvort yfirleitt sé hægt að veita undanþágu frá lögskráningarskyldunni til skipa í aðstoðar- og öryggishlutverki gagnvart öðrum skipum. Er í lagi að gera slíkt? Þetta held ég að menn þyrftu að athuga mjög vel.