Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:21:07 (6576)

2001-04-06 15:21:07# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að þetta frv. hefur litið dagsins ljós og er komið á dagskrá Alþingis. Það hefur tekið nokkurn tíma að skapa ramma um starfsemi náttúrustofanna og það er mikið gleðiefni að full samstaða skuli hafa verið um þessa lausn í hópnum sem undirbjó frumvarpsgerðina. Í fljótu bragði sýnist mér að þessi rammi sé mjög vel nýtanlegur.

Mig langar aðeins að taka fram í tilefni orða hv. þm. Jóns Bjarnasonar sem sagði að vandkvæði hefðu verið á því að sveitarfélög tækju þátt í starfsemi náttúrustofanna og tók Stykkishólm sem dæmi, að ég held að við þurfum að höfða til ábyrgðar og samstarfsvilja sveitarfélaganna til að starfa saman á þessu sviði. Það er þá kannski verkefni Sambands ísl. sveitarfélaga og sveitarfélaga almennt að menn fari með því viðhorfi í það starf sem náttúrustofur inna af hendi, að það sé ekki bara á hendi einhvers eins sveitarfélags og þar megi enginn annar koma að. Ég hef fulla trú á því að sveitarfélögin geti starfað vel saman að þeim gríðarlega miklu, fróðlegu og skemmtilegu verkefnum sem eru unnin í náttúrustofunum. Ég er sammála hæstv. umhvrh. um að náttúrustofurnar eru mikil lyftistöng þeim sveitarfélögum sem hýsa þær. Þær geta líka verið lyftistöng öðrum sveitarfélögum í nágrenninu og mikilvægt er að starfið sem fer fram á náttúrustofunum nú þegar --- auðvitað mun það eflast og þróast í framtíðinni --- fari fram sem víðast um landið.