Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:32:06 (6580)

2001-04-06 15:32:06# 126. lþ. 108.23 fundur 597. mál: #A Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur# (gjaldtökuheimildir, náttúrustofur o.fl.) frv., JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra um að aðilar standi saman að þessum verkefnum eins og eðlilegt og nauðsynlegt er.

En ég vil líka benda á, herra forseti, að það eru yfirleitt fleiri heimaaðilar, fleiri aðilar sem hafa hliðstæða ábyrgð og vinna að hliðstæðum verkefnum þannig að þau skarast. Ég nefni búnaðarsamböndin, stofnanir eins og Veiðimálastofnun og sumar menntastofnanir, ég nefni Hafrannsóknastofnun o.s.frv. sem eru með deildir út um landið og hefði þá verið æskilegt að horfa til þess hvernig viðkomandi stofa verði styrkust.

Í þeirri umræðu sem hæstv. ráðherra minntist einnig á, um staðsetningu náttúrustofu, þar sem tekist var á um hvort hún skyldi vera á Sauðárkróki eða annars staðar, t.d. á Hólum eða Skagaströnd, þá var einmitt tekist á um faglegt umhverfi og hvernig hún gæti orðið til styrktar starfi og vettvangi á þessu sviði. Og þá var einmitt lagt til að hún yrði á Hólum. Ég held að það beri einmitt líka að horfa til þessa en ekki bara hreinnar hreppapólitíkur eins og hæstv. ráðherra kom inn á.

Ég bendi á að þetta er mikilvægt verkefni fyrir sveitarfélögin, fyrir þau verkefni sem eru að færast á hendur sveitarfélanna í auknum mæli. Þess vegna á ekki að takmarka þetta við átta stofur. Húnavatnssýslurnar gætu þess vegna verið eining, Húnaflóinn. Það er engin náttúrustofa tengd því svæði. Ég er búinn að nefna Borgarfjörð og suðurhluta Norðurl. v. sem telur sig litla samleið eiga með náttúrustofu í Stykkishólmi.

Herra forseti. Ég tel að líta eigi raunhæft á það hvað séu eðlileg starfssvæði og hvar sé fengist við lík verkefni sem gætu orðið til styrktar á þeim svæðum og þess vegna eigi ekki að takmarka fjölda stofanna við átta.