Úrvinnslugjald

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 15:43:44 (6583)

2001-04-06 15:43:44# 126. lþ. 108.24 fundur 680. mál: #A úrvinnslugjald# frv., 681. mál: #A spilliefnagjald# (umsýsla) frv., DÁ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[15:43]

Daníel Árnason:

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir stuðningi við alla viðleitni í þá átt að auka nýtni og allar aðgerðir sem hamla gegn ofnotkun í þjóðfélaginu og sóun verðmæta. Við getum öll verið sammála um nauðsyn þessa. Hver man ekki ástandið á sorphaugum þéttbýlisstaða hér áður fyrr? Rusl og úrgangur var á fleiri ferkílómetra svæði og vargfuglar á sveimi þar í kring. Þetta er að verða liðin tíð sem betur fer.

Frv. það sem hæstv. umhvrh. hefur hér mælt fyrir er tvímælalaust til þess fallið að stuðla að áframhaldandi úrbótum, sérstaklega á sviði endurvinnslu og endurnýtingar og það er vel. Þær athugasemdir sem ég vil þó koma hér á framfæri eru eftirfarandi:

Frv. felur í sér mjög víðan ramma utan um þessi mál. Má þar t.d. nefna að ekki eru skýr ákvæði um hvort útflutnings- og framleiðslugreinar þurfa að sæta gjaldi eður ei. Þarna þarf að kveða skýrar að svo lögin valdi ekki hækkunum á framleiðslukostnaði þessara aðila og lakari samkeppnishæfni fyrirtækjanna.

Einnig er ýmsum praktískum spurningum ósvarað. Þar vil ég t.d. nefna samspil þeirra gjalda sem frv. gerir ráð fyrir að leggja á aðila og núverandi sorphirðu- og förgunargjalda. Heimildir þeirrar nefndar sem frv. gerir ráð fyrir að stýri úrvinnslu úrgangs í landinu eru mjög rúmar eins og áður segir. Hins vegar er jákvætt að atvinnulífið á fulltrúa í nefndinni og fleiri aðilar. Engu að síður skiptir máli að Alþingi fylgist vel með framkvæmd og útfærslu nefndarinnar á því sem frv. gerir ráð fyrir. Í trausti þess að Alþingi fylgi þessu vel eftir, styð ég framgang frv. fyrir mitt leyti.