Lækningatæki

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:13:35 (6592)

2001-04-06 16:13:35# 126. lþ. 108.27 fundur 254. mál: #A lækningatæki# frv., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:13]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er verið að setja sérlög um lækningatæki. Þetta mál var til umfjöllunar í hv. heilbr.- og trn., farið var mjög vel yfir það og gerðar á því smávægilegar breytingar eins og fram kom í máli hv. formanns heilbr.- og trn. hér á undan. Gerðar voru smávægilegar breytingar, aðallega orðalagsbreytingar til að færa lagamálið til betri íslensku og sömuleiðis örlitlar breytingar sem sneru að þýðingu lagatextans úr tilskipun Evrópusambandsins.

Eins og kemur fram í nefndarálitinu er þessum sérlögum ætlað að tryggja öryggi sjúklinga og annarra notenda lækningatækja og með frv. er verið að hrinda í framkvæmd tilskipunum Evrópusambandsins og samningum við ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins sem snúa að lækningatækjum.

Þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni, sú sem hér stendur og hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, styðja þetta mál enda skrifum við undir nefndarálitið án fyrirvara. Við styðjum þessi sérlög um lækningatæki enda eru þau til bóta og tryggja öryggi þeirra sem með lækningatækin fara og þurfa á þeim að halda.