Dýrasjúkdómar

Föstudaginn 06. apríl 2001, kl. 16:21:34 (6595)

2001-04-06 16:21:34# 126. lþ. 108.28 fundur 291. mál: #A dýrasjúkdómar# (sjúkdómaskrá o.fl.) frv., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 108. fundur, 126. lþ.

[16:21]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fjallaði nokkuð um það frv. sem hér liggur fyrir, frv. til laga um breytingu á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim, við 1. umr. málsins. Þá kom ég fram með nokkrar spurningar og efasemdir um ákveðin atriði. Ég tel að þeim spurningum hafi verið svarað í meðferð nefndarinnar. Auk þess bárust nefndinni fjölmargar umsagnir um málið sem voru allar jákvæðar og mæltu með samþykkt málsins.

Ég sé ekki ástæðu til að gera athugasemdir við það sem ég hafði mestan fyrirvara á, þ.e. að ég vildi ekki að þetta frv. færi í gegn og ítrekaði það síðar við umfjöllun í nefnd nema það væri fullvíst að í íslenskum lögum um dýrasjúkdóma væri fullnægjandi lagastoð fyrir svokölluðu ákvæði úr auglýsingunni sem var mjög vísað til í kúariðuumræðunni fyrir jólin. Þá töldu embættismenn ráðuneytisins að ekki hefði verið fullnægjandi lagastoð til að banna innflutning á nautakjöti frá Írlandi þó að þar hefði greinst bullandi kúariða undanfarna sex mánuði. En sá gleðilegi atburður gerðist að við nánari yfirferð á lögunum fann ráðuneytið stoð fyrir þessu ákvæði í auglýsingunni. Þar með þótti ekki ástæða til að setja frekari ákvæði inn í lögin til að styðja við það. Einkum og sér í lagi þess vegna skrifa ég undir þetta nefndarálit án fyrirvara.