Ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:05:07 (6613)

2001-04-23 15:05:07# 126. lþ. 109.1 fundur 465#B ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs# (óundirbúin fsp.), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. utanrrh. vegna atburða fyrir botni Miðjarðarhafs. Ljóst er að þar fer spenna ört vaxandi. Ísraelsmenn fóru með herlið inn á sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna fyrir fáeinum dögum en það er skýlaust brot á samningum aðila. Hizbollha-skæruliðar hafa skotið eldflaugum á íbúðabyggð í Ísrael og Ísraelsmenn gerðu síðan loftárásir á bækistöðvar Sýrlendinga í Líbanon í Beka-dalnum. Palestínumenn hafa ráðist að byggðum gyðinga á svæðum Palestínumanna. Ísraelsmenn svara fyrir sig með því að senda skriðdreka og jarðýtur til að eyðileggja byggðir Palestínumanna. Hryðjuverk eru nær daglegt brauð í Ísrael. Almenningur í þessum löndum líður fyrir ástandið og enginn virðist hafa stjórn á atburðarásinni. Á fimmta hundrað manns eru fallnir í valinn frá því að þessi átakahrina hófst.

Það er mjög mikilvægt að ríki heims geri allt sem í þeirra valdi stendur til að stuðla að friði og reyni að sjá til þess að aðilar setjist að samningaborði. Almenningsálitið skiptir máli í þessum efnum og þrýstingur þjóða skiptir einnig máli. Ég spyr hæstv. utanrrh. á hvern hátt Íslendingar geti lagt lóð á vogarskálar í þessu efni.

Enda þótt báðir aðilar, bæði Ísraelsmenn og Palestínuarabar komi að stríðsátökunum í árásarskyni, þá er ljóst hvar frumkvæðið að þessari hrinu hófst og hver hefur töglin og hagldirnar. Að sjálfsögðu er það Ísraelsstjórn sem hafði frumkvæðið og eðlilegt að mótmælum og hörðum mótmælum sé beint til hennar. Ég spyr hæstv. utanrrh. hvort það hafi verið gert og hvað standi til að gera. Að sjálfsögðu skiptir máli að báðir deiluaðilar axli ábyrgð sína og setjist að samningaborði.