Verð á grænmeti

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:21:53 (6625)

2001-04-23 15:21:53# 126. lþ. 109.1 fundur 467#B verð á grænmeti# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:21]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég hélt að verkalýðsleiðtoginn mikli, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, fagnaði því að verkalýðshreyfingin hefur verið kölluð að þessu borði. Hv. þm. hefur svarað fyrir sig.

Engin nefnd hefur verið slegin af heldur hafa þessir aðilar verið kallaðir að þessu sáttaborði. Ég vil segja að hv. þm. með fullyrðingum sínum og eina snarræðið sem hann jafnan sýnir er að hafa stór orð uppi og geta talað hratt en ekki alltaf af rökum eða fimi, því að það er rangt að tala um að í skjóli okurtolla hafi menn getað svindlað á þjóðfélaginu. Sannleikurinn er sá að ávextir eru án tolla. Þeir eru hér á okurverði samkvæmt sömu úttekt. Það er ekki sök landbrn. eða í skjóli þess að svo er.

Þess vegna er þetta mál flókið en það fær skjóta niðurstöðu, eins og ég hef sagt hér, á næstu vikum. Það er vilji í ríkisstjórninni og stjórnarflokkunum til að leiða þetta mál til lykta. Ég trúi því að það verði gert. En það verður ekki gert þannig að íslenskri garðyrkju verði fórnað.

Hv. þm. hefur ekki svarað spurningum mínum um samstöðuna í sínum flokki. Hún segir kannski meira en allt það sem hann sagði hér.