Staða starfsnáms

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:23:15 (6626)

2001-04-23 15:23:15# 126. lþ. 109.1 fundur 468#B staða starfsnáms# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Í sjónvarpsfréttum í gærkvöldi var greint frá niðurstöðum úr skýrslu, sem prófessor Jón Torfi Jónasson og Kristjana Halla Blöndal hafa unnið, sem ber heitið Námsferill í framhaldsskólum og viðhorf ungs fólks til náms. Skýrslan er unnin á grundvelli upplýsinga um árgang fæddan 1975.

Þar kemur fram að einungis um 11% þessa hóps ljúka prófi í verkgreinum sem er eitt það lægsta sem þekkist miðað við nágrannalönd okkar. Af þessu er fyllsta ástæða til að hafa þungar áhyggjur. Margt fleira kemur merkilegt fram í þessari skýrslu svo sem að mikill meiri hluti þeirra sem ljúka verklegu námi eru piltar en sárafáar stúlkur ljúka verklegu námi. Sömuleiðis að mikill meiri hluti þeirra sem stunda slíkt nám kemur af landsbyggðinni til þess að taka verklegt nám.

Herra forseti. Ég leyfi mér því að beina eftirfarandi spurningum til hæstv. menntmrh.:

1. Til hvaða aðgerða hyggst menntmrh. grípa til þess að efla og styrkja starfsnám í ljósi nýrra upplýsinga sem við höfum um skerta stöðu þess í menntakerfinu?

2. Greint var frá því að samþykkt voru lög árið 1999 um að fleiri brautir gætu útskrifað stúdenta en bara þær þrjár bóknámsbrautir sem áður höfðu heimild til þess samkvæmt nýsettum lögum. En til að svo megi verða þurfti að skilgreina viðbótaráfanga við þær verknámsbrautir til að hægt væri að ljúka stúdentsprófi af þeim. Skilgreiningu á þessu viðbótarnámi er ekki lokið og þeir nemendur sem nú eru í námi á verknámsbrautum og vilja gjarnan finna leið áfram til stúdentsprófs eru því í fullkominni óvissu. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. menntmrh.: Hvenær mun liggja fyrir skilgreining og ákvörðun viðbótarnáms til stúdentsprófs fyrir aðrar brautir framhaldsskóla en bóknámsbrautir?