Staða starfsnáms

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:28:16 (6629)

2001-04-23 15:28:16# 126. lþ. 109.1 fundur 468#B staða starfsnáms# (óundirbúin fsp.), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:28]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég átta mig ekki á síðari spurningunni, hvenær þetta liggi fyrir. Það liggja fyrir tillögur og þær hafa verið framkvæmdar um að skipta öllu atvinnulífinu upp í 14 starfsgreinar varðandi skólakerfið. Þar eru starfandi starfsgreinaráð sem eru að gera tillögur um námskrár á sínu sviði og verið er að þróa sífellt fleiri starfsnámsbrautir innan framhaldsskólanna.

Varðandi fjárhagslega hlið málsins má segja að það haldist nokkuð í hendur að ef nemendur eru mjög fáir þá er námið þeim mun dýrara. Það er sá vandi sem menn standa m.a. frammi fyrir í því hve nemendur eru fáir og menn verða að líta til þess þegar hugað er að þessum kostnaði. En ráðuneytið hefur í viðræðum við framhaldsskólana á undanförnum missirum lagt höfuðáherslu á að reyna að koma til móts við óskir þeirra að því er verknámið varðar.