Umferðaröryggisáætlun 2001--2012

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 15:31:14 (6632)

2001-04-23 15:31:14# 126. lþ. 109.1 fundur 469#B umferðaröryggisáætlun 2001--2012# (óundirbúin fsp.), KLM
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Á umferðarþingi sem haldið var um mánaðamótin nóvember/desember á síðasta ári var fagnað þeirri stefnumótun hæstv. dómsmrh. að miða við 40% fækkun dauðaslysa og meiri háttar slysa í umferðinni á næstu 12 árum. Jafnframt lýsti umferðarþing yfir vonbrigðum sínum yfir því að við fjárlagagerð fyrir árið 2001 var ekki gert ráð fyrir auknum fjármunum til þessa þarfa máls.

Umferðarþing skoraði síðan á ríkisstjórn og Alþingi að lýsa því yfir að mörkuð öryggisáætlun fyrir árin 2001--2012 mundi einnig innihalda fjárhags- og framkvæmdaáætlun og að tryggt yrði að nægjanlegt fé rynni til áætlunar úr opinberum sjóðum landsmanna.

Kostnaður vegna umferðarslysa hefur verið reiknaður út af Hagfræðistofnun Háskóla Íslands sem hefur komist að því að umferðarslys kosti þjóðfélagið um 12--15 milljarða kr. á ári miðað við árið 1999.

Herra forseti. Í viðtali við Morgunblaðið 6. desember sl. kveinkar hæstv. dómsmrh. sér undan þessari gagnrýni og telur hana ekki sanngjarna og sagði eitthvað á þá leið að sú umferðaráætlun sem lögð hefði verið fram á umferðarþingi væru aðeins drög. Þetta væri aðeins rammi sem settur væri fram og síðan þyrfti að ræða áætlunina á hinu háa Alþingi.

Herra forseti. Nú líður senn að þinglokum og þess vegna vil ég spyrja hæstv. dómsmrh.:

Hvers vegna hefur umferðaröryggisáætlun fyrir árin 2001--2012 ekki verið lögð fram á hinu háa Alþingi til umræðu og samþykktar?