Árósasamningur um aðgang að upplýsingum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:09:08 (6644)

2001-04-23 16:09:08# 126. lþ. 109.19 fundur 654. mál: #A Árósasamningur um aðgang að upplýsingum# þál., KF
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:09]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér liggur fyrir þinginu að lögfesta Árósasamninginn svokallaða. Vil ég í því samhengi minna á að þetta hefur verið til umræðu á þinginu, bæði á 125. löggjafarþingi og auk þess liggur fyrir till. til þál. nú í umfjöllun hjá umhvn. sama efnis um að þessi sáttmáli verði lögfestur hér á landi. Verð ég því að gleðjast yfir því að sjá þetta mál koma fram og mælt fyrir því af hæstv. utanrrh.

Ráðherrann sagði í ræðu sinni á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna haustið 1999 að brýna nauðsyn bæri til að ná fram alþjóðlegu samkomulagi um takmörkun og bann við losun þrávirkra lífrænna efna í hafið. Var það til marks um hversu háan sess ég tel að hann setji umhverfismálin í á alþjóðlegum vettvangi.

Árósasamningurinn sem var undirritaður í júní 1998 fjallar um það hvernig stjórnvöld eiga að hafa samráð við frjáls félagasamtök á sviði umhverfisverndar. Frjáls félagasamtök hér á landi má sennilega kalla bæði veikburða og fámenn. En þó bendir margt til þess að þeim muni vaxa fiskur um hrygg. Hins vegar eru frjáls félagasamtök á landinu mun fleiri en á sviði umhverfisverndar. Líkast til falla ein 1.500 samtök undir skilgreiningu á frjálsum félagasamtökum.

Þrjú meginefni samningsins eru í fyrsta lagi aðgangur að upplýsingum, í öðru lagi þátttaka almennings í ákvarðanatöku og í þriðja lagi aðgangur að réttlátri málsmeðferð sem heitir á ensku ,,access to justice``.

Það er kannski ekki alveg hárrétt að þýða það á þennan hátt, þ.e. að réttlátri málsmeðferð. Þetta er nokkuð víðtækara eins og það stendur á ensku. Það má líka segja: Hvað er réttlát málsmeðferð í sjálfu sér? Hugtakið varðar aðild að gjafsóknum og margt fleira sem getur varðað dómstóla og dómstólaframkvæmd.

Hvað 2. liðinn varðar, þ.e. þátttöku almennings í ákvarðanatöku, þá telja sumir að það þurfi að setja lög eða breyta lögum til þess að þetta getið gengið. Þess vegna kemur það mér á óvart að sagt er að líkast til þurfi ekki lagabreytingar hér á landi. Þessi 2. liður um þátttöku almennings hefur sennilega meira með dómsmrn. og önnur ráðuneyti að gera heldur en umhvrn. Til dæmis þarf að hugsa um öll þau ráðuneyti sem gefa út leyfi til framkvæmda og þau eru fjölmörg.

Áhrif frjálsra félagasamtaka í heiminum eru mjög mikil. Vonandi er nú brátt liðinn sá tími að frjáls félagasamtök í umhverfismálum séu stimpluð öfgastimplinum eða sem hryðjuverkamenn. Flestir þeir sem eru í slíkum félagasamtökum eru fólk sem hefur áhyggur af framtíð umhverfismála í heiminum og vill gjarnan leggja sitt af mörkum til þess að tryggja afkomendum okkar betra umhverfi og lítur svo á að það verði ekki gert nema tekið sé á málum nú.

Skilgreiningin á frjálsum félagasamtökum er auðvitað sú að þau eru ekki öðrum háð og þau eru fjárhagslega sjálfstæð. Þau hafa mjög fjölþætt hlutverk. Þau eru umræðuvettvangur. Þau hafa alþjóðleg tengsl. Þau eru umsagnaraðilar fyrir stjórnvöld. Þau koma fram með hugmyndir. Þau gagnrýna stjórnvöld. Þau geta hrósað stjórnvöldum. Allt er þetta jafnmikilvægt. Þau vekja athygli á því sem miður kann að fara og þau geta stuðlað að rannsóknum á sviði umhverfismála. Því er afar mikilvægt að efla slík samtök og virkja þá þekkingu sem þar er að finna.

Árósasamningurinn segir að við eigum að lögfesta þetta samstarf og það er fagnaðarefni að þessi þáltill. skuli fram komin og ég styð hana heils hugar.

Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé eðlilegt að hæstv. utanrmn. sendi tillöguna til umsagnar hæstv. umhvn. og mun leggja það til.