Árósasamningur um aðgang að upplýsingum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:15:18 (6645)

2001-04-23 16:15:18# 126. lþ. 109.19 fundur 654. mál: #A Árósasamningur um aðgang að upplýsingum# þál., KolH
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:15]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Virðulegur forseti. Sannarlega er rétt að fagna framkominni till. til þál. um fullgildingu Árósasamningsins því að ég tel að Árósasamningurinn marki ákveðin tímamót, ekki bara í starfsemi frjálsra félagasamtaka, heldur ekki síður í starfsemi stjórnvalda. Nú er það aðalatriði fyrir þau frjálsu félagasamtök sem starfa á vettvangi umhverfismálanna að stjórnsýsla sé gagnsæ og hún sé þess eðlis að aðgangur að upplýsingum sé ævinlega tryggður og þátttaka í ákvarðanatöku sé eðlilega tryggð.

Alkunna er að umhverfissamtök hafa verið að eflast mjög mikið síðustu árin. Þau hafa látið til sín taka á þeim vettvangi mjög víða í heiminum og víðast hvar má segja. Svo er einnig hér á landi. Þess er skemmst að minnast að nýverið var undirrituð samstarfsyfirlýsing frjálsra félagasamtaka á sviði umhverfismála og umhvrn. á Íslandi. Bara sú yfirlýsing er tímanna tákn og ég er sannfærð um að hún ásamt samþykkt þessarar tillögu komi til með að breyta umhverfi okkar umtalsvert og svo sannarlega til hins betra.

Það eru sannarlega tímamót sem Árósasamningurinn hefur fólgin í sér því að í formála hans er gerð grein fyrir þeim væntingum og markmiðum sem þeir aðilar sem að honum stóðu höfðu að leiðarljósi við gerð hans. Mig langar til að fá að vitna í greinargerð með tillögunni sem hér liggur fyrir, með leyfi forseta, en þar segir:

,,Sérstök áhersla er lögð á tvö grundvallaratriði: umhverfisrétt sem mannréttindi annars vegar og mikilvægi aðgangs að upplýsingum, þátttöku almennings og aðgangs að réttlátri málsmeðferð við sjálfbæra þróun hins vegar.

Í formálanum er sú hugmynd að fullnægjandi umhverfisvernd sé undirstaða þess að menn geti notið grundvallarmannréttinda tengd þeirri hugmynd að hver einstaklingur eigi rétt á að lifa í heilbrigðu umhverfi og honum beri skylda til að vernda umhverfið.``

Þetta eru afar háleit markmið, herra forseti, og þess vegna segi ég og undirstrika að um tímamót er að ræða í íslenskri stjórnsýslu að fá hér fram lagðan samning af þessu tagi sem leggur stjórnvöldum Íslands þá skyldu á herðar að stefna að þeim göfugu markmiðum sem hér er lýst. Nú verðum við að treysta, herra forseti, að efndir verði og að þetta verði ekki bara staðlaus bókstafur á bókfelli heldur að ríkisstjórn Íslands, bæði sú sem nú starfar og þær sem eiga eftir að taka við í nánustu framtíð, komi til með að virða allt það sem í þessum samningi stendur. Ég lýsi því yfir, herra forseti, að ég treysti þeim samtökum sem hér starfa á sviði umhverfismála til að minna á sig með reglulegu millibili og standa vaktina og treysti því eins og ég segi að hér fylgi fullur vilji íslenskra stjórnvalda og fagna fram kominni tillögu.