Árósasamningur um aðgang að upplýsingum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:22:14 (6647)

2001-04-23 16:22:14# 126. lþ. 109.19 fundur 654. mál: #A Árósasamningur um aðgang að upplýsingum# þál., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég vil þakka fyrir þessa umræðu. Það kom hv. þm. Katrínu Fjeldsted á óvart að ekki þurfi lagabreytingar til að fullgilda samninginn. Ég held að það beri vitni um það að á undanförnum árum höfum við verið að starfa í anda þeirrar hugsunar sem hér kemur fram og ég treysti því að umhvrh. leggi rétt mat á það að ekki sé tilefni til lagabreytingar. Það er einmitt efni sem rétt er að fara yfir í nefnd og er það eins sjálfsagt og allt annað er sjálfsagt að mál þetta sé jafnframt meðhöndlað í umhvn. og þingsköp gera ráð fyrir því í málum sem þessum. En í þessu tilviki er um alþjóðlegan samning að ræða og þar sem er um alþjóðlegan samning að ræða fellur hann undir verksvið utanrrn. og þar með utanrmn. en jafnframt er um samning að ræða sem fyrst og fremst er á verksviði umhvrn. og á sviði umhverfismála. Það liggur fyrir að þegar samningurinn hefur verið frá genginn, þá verði það umhvrn. að framfylgja honum og bera ábyrgð á honum þó að stjórnskipun okkar sé þannig að utanrrn. gangi frá málum á samningsstigi og beri ábyrgð á öllum alþjóðlegum samningum.

Ég er þeirrar skoðunar að unnið hafi verið í þessum anda. Hér vitnaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir í samstarfsyfirlýsingu umhvrn. og frjálsra félagasamtaka frá því í sumar. Mér finnst ekki rétt að halda því fram að ákveðinn stirðleiki hafi verið í þessum málum á undanförnum árum en hins vegar má ljóst vera að ekki er alltaf samstaða um nýtingarmál í landi okkar. Þarna eru mörg sjónarmið sem koma að, bæði umhverfissjónarmið, efnahagsleg sjónarmið og ljóst er að menn þurfa að vega og meta þessi mál. En aðalatriðið er að það fái eðlilega umræðu og það sé gert fyrir opnum tjöldum eins og hér hefur komið fram.

Að lokum hljóta það að vera lýðræðislega kjörin stjórnvöld sem bera hina endanlegu pólitísku ábyrgð. En það er mikils um vert að það ferli sé með þeim hætti að það sé ásættanlegt en að lokum verða einhverjir að taka hina endanlegu ákvörðun. Því miður er ekki alltaf hægt að gera svo að öllum líki í því sambandi en ég vænti þess að við þá vinnu, sem hefur farið fram á undanförnum árum til að efla þessa umræðu og styðja við bakið á frjálsum félagasamtökum með þeim hætti sem umhvrn. gerði með undirritun 20. mars við ein tíu samtök ef ég man rétt, hefjist þar ferli sem muni leiða til þess að meiri sátt geti tekist um margvísleg verkefni sem menn eru að ráðast í í samfélaginu og verða alltaf að ráðast í því að framfarirnar byggjast á uppbyggingu. En hér hefur verið komið á löggjöf sem gerir ráð fyrir því að allar slíkar ákvarðanir fari í gegnum ákveðið ferli og við höfum náð ágætri sátt um hvernig að þessu skuli standa. Ég tel að það sé mikilvægt skref þegar nýju lögin um mat á umhverfisáhrifum voru samþykkt á Alþingi.