Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:27:10 (6648)

2001-04-23 16:27:10# 126. lþ. 109.20 fundur 655. mál: #A samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar á V. viðauka við samning frá 22. september 1992 um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, og 3. viðbæti við samninginn sem gerðir voru í Sintra í Portúgal 23. júlí 1998.

Samningur um verndun Norðaustur-Atlantshafsins, hér eftir nefndur OSPAR-samningurinn, sem gerður var í París 22. september 1992, var fullgiltur af Íslands hálfu 2. júní 1997, en Alþingi hafði með ályktun 7. maí sama ár heimilað fullgildingu samningsins og öðlaðist hann gildi þann 25. mars 1998.

OSPAR-samningurinn hefur það að markmiði að vernda umhverfi Norðaustur-Atlantshafsins. Um er að ræða rammasamning sem skiptist upphaflega í meginhluta, fjóra viðauka og tvo viðbæta. Meginhlutinn hefur að geyma almenn ákvæði en í viðaukunum eru settar reglur um mengun frá landstöðvum, mengun af völdum varps eða brennslu, mengun frá uppsprettum á hafi og mat á ástandi hafsins. Viðbætarnir eru tæknilegs eðlis. Uppbygging samningsins miðast við að hann sé sveigjanlegur og geti, með ákveðnum takmörkunum, rúmað ný svið sem ekki voru fyrirséð þegar samningurinn var gerður á sínum tíma.

Eitt af þeim málum sem athyglin hefur beinst að á vettvangi OSPAR á undanförnum árum er vernd tegunda og búsvæða á hafsvæði því sem OSPAR-samningurinn nær yfir. Hafa bæði almenningur og stjórnvöld í löndum, sem liggja að Norðursjó og eru einnig aðilar að OSPAR, haft verulegar áhyggjur af þróun þessara mála. Á fundi ráðherra umhverfismála þessara landa, sem haldinn var í Esbjerg 1996, var samþykkt að ganga til samninga um sameiginlegar aðgerðir um vernd tegunda og búsvæða. Á þeim fundi kom einnig fram vilji til þess að heppilegast væri að marka viðfangsefninu stað í nýjum viðauka við OSPAR-samninginn.

Hinn nýi viðauki við OSPAR-samninginn, um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins, var samþykktur á fundi ráðherra aðildarríkja samningsins í Sintra í Portúgal 23. júlí 1998. Kjarni V. viðauka kemur fram í 2. gr. hans þar sem segir að aðildarríki OSPAR-samningsins skuli a) grípa til nauðsynlegra aðgerða til að vernda og varðveita vistkerfi og líffræðilega fjölbreytni hafsvæðissamningsins og, þegar raunhæft er, endurheimta hafsvæði sem orðið hafa fyrir skaðlegum áhrifum, og b) vinna í sameiningu að samþykkt áætlana og aðgerða sem þjóna þeim tilgangi að stjórna mannlegum athöfnum sem skilgreindar eru í viðmiðunum í 3. viðbæti.

Með hinum nýja viðauka eru verndaraðgerðir tengdar við varnir gegn mengun sjávar, eftir því sem við á. Gera má ráð fyrir að starf OSPAR samkvæmt þessum viðauka móti mjög aðgerðir til verndunar vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni og að athygli manna muni beinast að því að samþætta varnir gegn mengun sjávar og varnir gegn álagi á umhverfi sjávar af annars konar völdum.

Í samningaviðræðunum um hinn nýja viðauka lögðu Ísland og Noregur áherslu á að hann mætti ekki á nokkurn hátt ná til nýtingar lifandi auðlinda hafsins, enda félli hún utan gildissviðs OSPAR-samningsins og þessi skilningur er staðfestur við viðaukann.

Ég vil síðan leggja til, herra forseti, að tillögunni verði vísað til hv. utanrmn.