Menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:34:18 (6650)

2001-04-23 16:34:18# 126. lþ. 109.22 fundur 659. mál: #A menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips# þál., utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til að Ísland gerist aðili að alþjóðasamþykkt um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður áhafnar fiskiskips, sem gerð var í Lundúnum 7. júlí 1995.

Samþykktin hefur að geyma ákvæði um menntun og þjálfun, skírteini og vaktstöður skipstjóra, stýrimanna, vélstjóra og fjarskiptamanna um borð í fiskiskipum sem eru 24 metrar að lengd eða lengri.

Í I. kafla viðauka við samþykktina er að finna skilgreiningar á ýmsum hugtökum auk ákvæða um gildissvið, tilhögun eftirlits, miðlun upplýsinga, útgáfu skírteina, áritanir skírteina, lagaskil, undanþágur og lágmarkskröfur.

Í II. kafla viðaukans eru ákvæði um lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi skipstjóra og yfirmanna siglingavakta á fiskiskipum og jafnframt eru þar ákvæði um lögboðnar lágmarkskröfur sem fullnægja ber til að öðlast réttindi yfirvélstjóra og 2. vélstjóra á fiskiskipum með 750 kílóvatta aðalvél eða stærri.

Í III. kafla viðaukans eru ákvæði um grunnmenntun og þjálfun áhafnar fiskiskips, m.a. skyndihjálp og slysavarnir.

Í IV. kafla viðaukans eru ákvæði um grundvallaratriði sem fylgja ber við siglingavakt um borð í fiskiskipum.

Aðild að samþykktinni kallar á löggjöf um áhafnir íslenskra skipa og hefur hæstv. samgrh. þegar lagt fram á Alþingi frv. til slíkra laga. Það frv. byggist á því að Ísland gerist aðili að samþykktinni og taka ákvæði frv. mið af ákvæðum hennar.

Ég vil leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til hv. utanrmn.