Girðingalög

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 16:56:41 (6658)

2001-04-23 16:56:41# 126. lþ. 109.23 fundur 636. mál: #A girðingalög# (heildarlög) frv., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[16:56]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara efnislega yfir þetta frv. til girðingalaga en þakka fyrir að það hefur verið lagt fram því mikil þörf er á skýrum reglum, bæði um flokkun girðinga og ekki síður hver eigi að greiða og hvernig kostnaðarskipting eigi að vera. Tíð slys hafa verið af völdum búfjár á vegum og nauðsynlegt er að leggja fjármagn í að girða meðfram þjóðvegum og eins að skilgreina hvernig þær girðingar eigi að vera eftir mismunandi tegundum búfjár sem halda á innan girðinga þó ekki sé tekið á þeim girðingum í þessu frv. Eins vil ég þakka fyrir að tekið skuli á því sem hér kemur fram um umhirðu, þ.e. það að hreinsa upp gamlar, ónothæfar girðingar, gaddavírsgirðingar sem víða liggja, því þær eru til óþurftar og til lýta fyrir landið og smán fyrir okkur Íslendinga alla að hafa slíkar girðingar uppi.

En allt kostar þetta fé og við þurfum þá í framhaldi af breytingu á lögum að fylgja því eftir við afgreiðslu fjárlaga að ef einhver kostnaður fellur á ríkið, t.d. kostnaður við girðingar meðfram þjóðvegum, að fé sé þá til á fjárlögum.

Herra forseti. Þessu frv. verður vísað til hv. landbn. Þar á ég sæti og ég efa ekki að við munum fara vel yfir frv. þar.