Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:10:25 (6660)

2001-04-23 17:10:25# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:10]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér skuli komin fram till. til þál. um landgræðsluáætlun 2002--2013 og einnig að gert skuli ráð fyrir að hún verði endurskoðuð fyrir árslok 2003. Ég þakka líka fyrir hversu vel þetta plagg er úr garði gert. Þau verkefni sem helst knýja á eru ákaflega vel skilgreind með teikningum og línuritum. Ég verð að segja að það er mikils virði að fá í upphafi nefndarstarfs svo góða till. til þál. til að starfið sem nefndin þarf að vinna við yfirferð tillögunnar verði sem árangursríkast.

Í áratugi hefur verið unnið mjög mikilvægt og árangursríks starf í landgræðslu. Það er mikil samstaða og stemmning meðal þjóðarinnar um þetta verkefni en samt hefur því miður ekki tekist að koma í veg fyrir jarðvegsrof í landinu með þessu starfi. Jarðvegsrof er enn mjög mikið og ástand gróðurs víða mjög slæmt. Það er bæði vegna þess að í gegnum aldirnar hefur fé verið beitt ótæpilega á þessi lönd og líka vegna þess við verðum stöðugt fyrir búsifjum t.d. vegna eldsumbrota.

Markmið þessarar till. til þál. er að tryggja að landnýting verði alls staðar sjálfbær, þ.e. að ekki verði gengið á gæði landsins og tek ég mjög eindregið undir það markmið.

Hér eru m.a. talin upp þau markmið tillögunnar að stöðva jarðvegseyðingu; standa að uppgræðslu og eftirliti með ástandi gróðurs og jarðvegs, stjórn landnýtingar; fræðslu, ráðgjöf, rannsóknum og upplýsingamiðlun. Áætlunin er sögð fela í sér að auka landgræðslu og veita atvinnu, ekki mun af veita út um hinar dreifðu byggðir að virkja einmitt bændur og þann vélakost sem til er í sveitum landsins til að vinna að þessu verkefni fyrir það fjármagn sem til þess rennur af fjárlögum. Árangurinn af því mun áreiðanlega skila sér margfalt, bæði til bænda og þjóðarinnar í heild.

Eitt af höfuðmarkmiðum áætlunarinnar er auk þess að stuðla að því að við getum uppfyllt alþjóðasamninga sem við erum aðilar að. Bent er á að landgræðslan sé hagkvæm leið til að binda kolefni. Það er einmitt á þeim forsendum sem fjármagn til landgræðslu hefur á síðustu árum verið aukið mjög. Á línuriti á bls. 4 í þessari tillögu sést að eftir þjóðargjöfina voru framlög til landgræðslu nokkuð há í mörg ár en svo dró mjög úr þeim á tímabili. Nú hefur aftur verið aukið við fjármagn til þessa þáttar og fyrst og fremst á þeim forsendum að með því sé unnið gegn gróðurhúsaloftslagi.

[17:15]

Í einu af þeim ágætu línuritum og kortum sem hér eru á bls. 5 er gefin einkunn eftir því hversu mikið rof er í gangi á viðkomandi svæðum. Í ljós kemur t.d. að 6% landsins --- þó eru jöklar, vötn og hæstu fjöll undanskilin --- þ.e. 6.641 km2 eru skilgreindir með rofeinkunn 5, sem er mjög mikið rof. Og 11% landsins eru með rofeinkunn 4, sem er mikið rof, eða 10.872 km2. Ég verð að segja að þetta eru auðvitað ógnvekjandi tölur og sýna að við þurfum virkilega að gera sameiginlegt átak.

Mig langar í lokin að koma aðeins að einum þætti landgræðslunnar, en það eru fyrirhleðslur og minna á að þar er víða, eins og reyndar er tekið fram í þáltill., sem þarf að gera mikið átak. Ég hef sérstaklega kynnt mér þessi mál á Suðausturlandi t.d. við Skaftá, þar eru gríðarleg verkefni sem þarf að vinna og að mínum dómi mjög fljótt.

Eins og áður hefur verið sagt í umræðunum í dag á ég sæti í hv. landbn. og kem auðvitað þar að afgreiðslu þessarar þáltill. og vonast til að hún fái farsæla afgreiðslu.