Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:17:46 (6661)

2001-04-23 17:17:46# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég fagna því að fram er komin till. til þál. um landgræðsluáætlun frá 2002--2013.

Það er mikill áhugi á landgræðslu á Íslandi í dag, bæði skógrækt og almennri landgræðslu, og að vinna bug á rofabörðum, sandauðnum og sandfoki. Því er mikilvægt að standa vel að landgræðslu og sameina krafta allra landsmanna, sama hvort það eru einstaklingar, bændur eða opinberar stofnanir. Og að sú áætlun sem lögð er fram og sú landgræðsla sem unnin er sé byggð á rannsóknum og að einhver samræmd áætlun sé í gangi. Ég fagna því þessari þáltill. og hlakka til að fjalla um hana í hv. landbn.

Þáltill. er kaflaskipt. Sett eru fram markmið og undirmarkmið og hvað þurfi að gera til að ná þeim markmiðum. Við fyrstu sýn er ég ánægð með að sjá hvað þetta er aðgengilega sett upp.

Eitt af markmiðunum er --- ég ætla ekki að telja þau öll upp því hæstv. landbrh. gerði það --- að öll landnýting verði sjálfbær. Því fagna ég. Með sjálfbærri landnýtingu er líka átt við fjölbreytni flórunnar. Það eru líka lönd sem þarf að varðveita í þeirri mynd sem þau eru og hafa möguleika á sjálfbærri endurnýtingu án þess að mannshöndin grípi þar inn í með sáningu eða plöntum. Þess vegna er mikilvægt að svona landgræðsluáætlun taki tillit til allra þátta.

Að binda kolefni gróðri og jarðvegi til mótvægis við losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er gott markmið, en ég ætla að vona að hér sé ekki eingöngu höfð í huga stóriðja og skuldbindingar varðandi stóriðju. Ég vona að við séum ekki að miða þessa bindingu kolefna við þá umferð og útblástur frá farartækjum, þar á meðal skipum sem við stöndum fyrir án þess að fara í mjög kröftuga kolefnisbindingu, eingöngu til þess að uppfylla hugsanlega skuldbindingar varðandi Kyoto-sáttmálann. Þetta er hugsanlega góður hvati, en ég ætla að vona fyrir okkar hönd að við þurfum ekki slíka svipu á okkur til þess að fara í svo metnaðarfulla áætlun eins og hér er lögð fram.

En eins og ég sagði áðan eru rannsóknir undirstaða slíkrar landgræðsluáætlunar og þar verðum við að efla okkur og samræma rannsóknir mismunandi stofnana.

Við höfum í þeim sauðfjársamningi sem nú er í gildi og eins varðandi almennt búfjárhald talað um ákveðna gæðastýringu í landbúnaði. Og þó ekki sé talað um ákveðna ítölu í búfé er sú hugsun á bak við þá gæðastýringu að hver bóndi gæti varúðar varðandi fjölda sauðfjár og hesta með tilliti til þess að ofbjóða ekki gróðri landsins. Svona landgræðslu\-áætlun samtvinnast búfjárhaldi í landinu. Það er alveg orðið ljóst hvað beitarþol er víða viðkvæmt og hvað landinu hefur víða verið ofboðið með ofbeit, sérstaklega þó af sauðfé og jafnvel núna einnig af hestum, og að þeim ranni þarf að huga líka þegar verið er að setja upp slíka áætlun.

Eins og ég sagði áðan þakka ég fyrir að þessi þáltill. er fram komin. Ef þessi áætlun gengur eftir verður hún örugglega til þess að efla byggð í landinu. Uppi eru áætlanir um að koma á fót fleiri hérðassetrum, m.a. á Austurlandi. Það á að styrkja bændur til þess að halda áfram að vera í verkefnum við að græða landið. Allt er þetta til að styrkja búsetu í landinu og ég ætla að vona að það gangi eftir.