Landgræðsluáætlun 2002-2013

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 17:30:44 (6663)

2001-04-23 17:30:44# 126. lþ. 109.24 fundur 637. mál: #A landgræðsluáætlun 2002-2013# þál., landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari umræðu fyrir undirtektir þeirra og umfjöllun og legg á það áherslu, eins og hér hefur komið fram, að auðvitað er það landbn. að taka við þessu máli og fullvinna það og vonandi, þó að málið sé tiltölulega seint fram komið, að afgreiða það á þessu vorþingi sem ég held að væri nokkuð mikilvægt að ætti sér stað. Ég þakka umræðuna og undirtektirnar.

Það er ljóst, hv. þingmenn, að Ísland er land elds og ísa. Hér hafa mikil örlög átt sér stað í gegnum aldirnar og landið ber þess merki hvar á hjaranum við erum stödd. Við sjáum þess vegna afleiðingar kuldans og eldgosanna sem hafa eytt gróðri og við vitum líka að forfeður okkar voru fátækir og nýttu landið sér til lífsviðurværis oft við illan leik. Sú kynslóð sem nú starfar í landinu og á þetta land og elskar vill því auðvitað taka það í fóstur og breyta ásýnd þess. Um það held ég að sé mikil samstaða þannig að það kemur ekki á óvart í þessari umræðu.

Hv. þm. Þuríður Backman minntist á þann ávinning sem menn telja nú af því að binda kolefni. Það er auðvitað eitt ljóst í lífi samtímans að heimurinn eða einstaklingarnir sem búa í veröldinni óttast kannski örlög framtíðarinnar og stöðu og vilja gefa sér nýja lífsbók til þess að starfa eftir og ég hygg að hún byggi nú á þeim markmiðum að varðveita lífsskilyrði barna okkar sé til framtíðar horft. Og það hefur verið hlutverk íslenskra stjórnmálamanna að undirbúa aðstæður fyrir öflugt atvinnulíf á Íslandi til þess að tryggja að börnin okkar geti sest hér að og búið við lífskjör eins og aðrar þjóðir bjóða best upp á. Þetta hefur verið okkar gæfa. Það hefur t.d. verið gæfa Framsfl. núna síðustu sex árin að taka þátt í að endurskipuleggja íslenskt þjóðfélag með sókn í huga þar sem dugandi atvinnulíf skapar mörg ný tækifæri. Erlend fjárfesting hefur átt sér stað. Við höfum séð virkjanir og orkuver rísa. Við höfum séð kraft í íslensku atvinnulífi. Auðvitað er ánægjulegt að taka þátt í slíku.

Ég vil því líta svo á að menn séu ekki eingöngu að hugsa um stóriðju. Hún er hluti af afkomu okkar í þessu landi, verður það trúlega því að við erum með bestu orkugjafa heimsins. En við verðum að fara af fullri gætni og umgangast náttúru okkar af mikilli virðingu og meta verðgildi hennar, horfa til nýrra tíma og framtíðarinnar. Það er ekki einfalt mál en um það þarf í rauninni að ná þjóðarsátt, hvar við virkjum, hvert við stefnum o.s.frv., þannig að það er stórmál á hverjum tíma. En mikilvægasta málið er að hafa svigrúm framtíðarinnar vegna til þess að geta tekið þátt í rismiklu atvinnulífi heimsins og boðið þjóð okkar bestu lífskjör. Það er ekkert einfalt mál. Það er mikið verkefni allra stjórnmálamanna í fortíð og framtíð að huga að því með atvinnulífinu. Það er kannski mesta og erfiðasta verkefni okkar. Og sem betur fer á ofbeit sauðfjár sér nú vart stað í dag og þarf ekki að tíunda það. Sauðfé, vetrarfóðruðum ám hefur fækkað um helming á um 20 árum og er nú um 450 þúsund þannig að þar hefur orðið mikil breyting. Hins vegar þarf að huga þar að ákveðnum svæðum og ná stjórn á beitinni. En það gleðilega í vinnu Landgræðslunnar er auðvitað það að hún vinnur í ríkum mæli með notendum landsins og hefur gert samninga við eina 600 bændur um sínar heimajarðir og með gæðastýringu samtímans eru menn að skynja þetta betur og læra betur að lesa landið og fara með það þannig að þar eru góðir hlutir að gerast.

Hv. þm. Jón Bjarnason saknar þess að stjórnarliðar skuli ekki vera margir í salnum. Ég get tekið undir það með honum en fjarvera þeirra segir líka kannski ákveðna sögu. Þeir hafa fjallað um þetta stóra mál í þingflokkum sínum. Þeir eru stuðningsmenn þess --- eða ég lít svo á --- og styðja þetta mál heils hugar þó að auðvitað eigi þeir að vera hér við umræðu málsins, ekki síst þeir sem í nefndinni sitja sem fær þetta stóra verkefni til umfjöllunar. Það má segja, hæstv. forseti, að það ætti nánast að vera skylda þingsins að skipuleggja það sérstaklega að ekki síst þeir sem taka við málunum hlýði á þá umræðu sem fram fer um stór mál í þinginu. Ég tek því undir með hv. þm. að vissulega sakna ég þeirra þó að ég telji að þetta segi ákveðna sögu.

Hv. þm. Jón Bjarnason minnist hér á verkefnin í stofnunum landbúnaðarins og óskaði þess að þau fari ekkert síður fram á landsbyggðinni og reyndar miklu frekar en í stofnunum landbúnaðarins. Ég tek undir það með hv. þm. Ekki þarf að minna á það að landbrn. býr við það að stór hluti þeirra stofnana sem tilheyra því er starfræktur á landsbyggðinni og við teljum að verkefnin séu einnig þannig og það sé ekki síst okkar hlutverk að styrkja þær og að störfin verði þar. Landgræðslan er nú í Gunnarsholti. Þar hefur hún þróað öflugt starf og komið upp sínum héraðssetrum, sem ég heyri að hv. þingmenn taka mjög undir að verði styrkt, þannig að ég tel að þetta sé allt á góðri leið. Ég þakka auðvitað fyrir að menn skuli brýna ráðherra til dáða og vilji ekki að hann sofni á verðinum eða ruglist í ákvarðanatöku sinni. Þessi föðurlega umhyggja þingsins er svo mikilvæg.

Ég veit ekki hvort ég á að bæta meiru við þetta. Ég þakka bara þessar undirtektir og vona að þessu máli verði vel tekið í þinginu og ekki síður að það nái helst fram að ganga á þessu vorþingi þó að ég viðurkenni, og það er staðreynd, að málið er nokkuð seint fram komið.