Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:09:26 (6672)

2001-04-23 18:09:26# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hér sé til umræðu ákaflega þarft mál. Ég er þeirrar skoðunar að hæstv. landbrh. hafi að mörgu leyti brugðist mjög vel við þeim aðstæðum sem upp hafa komið. Þær hafa komið fram á mismunandi tímum og í hverju landinu á fætur öðru þannig að oft þarf að meta stöðuna upp á nýtt.

Hins vegar held ég að nú sé runninn upp sá tími sem gæti reynst okkur hvað hættulegastur, þ.e. sumartíminn, þegar mestur fjöldi ferðamanna kemur hingað og menn koma hingað með ökutæki. Það mætti t.d. spyrja hvernig menn ætli að standa að því að tryggja það að hjólbarðar séu hreinir þegar komið er með ökutæki inn í landið. Hvernig standa menn að því, t.d. í sambandi við ferðir Norrænu? Ég held að það sé atriði sem huga þurfi virkilega vel að. Jafngott og það nú er að krefjast þess að menn stígi á skófatnaði sínum á sérstakar hreinsunarmottur, þá má spyrja: Hvernig er með annað skótau sem menn taka með sér? Þannig er auðvitað lengi hægt að spyrja.

Ég kem hér upp til að vekja athygli á því að sumarmánuðirnir geti vegna aukins ferðamannastraums verið okkur hættulegir. Þess vegna tel ég að huga þurfi virkilega vel að öllum forvörnum svo að hingað berist ekki smitsjúkdómar, t.d. gin- og klaufaveiki. Það væri mjög hættulegt fyrir land eins og Ísland þar sem slíkir sjúkdómar hafa ekki verið, ef þeir bærust hingað. Við mundum bera af því verulegan skaða og ég vil því ítreka við hæstv. ráðherra að huga enn frekar að þessum málum.