Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:11:43 (6673)

2001-04-23 18:11:43# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. varnaðarorð hans. Þau eiga auðvitað rétt á sér því hættulegasti tíminn er fram undan. Að því hefur verið hugað hvernig við skuli brugðist. Stóra málið fram undan er hvernig tekið skuli á móti farþegum Norrænu. Ég held að það þurfi að vera mikil fræðsla um þessi mál um borð í Norrænu og ekki síður í flugvélum sem hingað koma. Gestirnir sem til landsins koma hygg ég að beri virðingu fyrir landinu og vilji ekki að skaði hljótist af för sinni. Þannig þarf mikla fræðslu, bæði í bæklingum, með myndböndum o.s.frv. jafnhliða mjög ströngu eftirliti.

Ég veit ekki hvernig brugðist verður við með hjólbarðana, hvort bílarnir verða látnir aka ofan í sótthreinsiþró. Það er atriði sem ég hef enn ekki athugað.

Ég tel mikilvægt að gera þeim gestum sem til landsins koma grein fyrir áhyggjum okkar og þeim kröfum sem við gerum til þeirra, bæði varðandi skófatnaðinn og ekki síður það að bera ekki mat til landsins og leifar hans verði síðan hér á víðavangi. Þetta eru mikilvæg atriði.

Íslendingar sjálfir verða vitanlega að gæta sín á sínum ferðalögum og ganga varlega um gleðinnar dyr í þeim efnum. Ég trúi því, miðað við þær undirtektir sem ég verð var við og áhyggjur almennings, að almenningur sé mjög meðvitaður. Allar þessar varnaðarræður eiga rétt á sér og ég þakka hv. þm. fyrir þá síðustu. Hún var ekki sú versta.