Smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum

Mánudaginn 23. apríl 2001, kl. 18:39:04 (6680)

2001-04-23 18:39:04# 126. lþ. 109.25 fundur 621. mál: #A smitsjúkdómavarnir og eftirlit með innfluttum matvælum og aðföngum# þál., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil hafa það alveg á hreinu og ég vona að sé viðhorf flestra íslenskra stjórnmálamanna og hygg að þjóðin skilji hvað í húfi er, að þó að einhverjir séu Evrópusinnar og vilji ganga í Evrópusambandið þá er náttúrlega tvennt sem við getum ekki gert. Við getum ekki afsalað okkur sjávarútvegsauðlindinni með þeim hætti og það er alveg klárt mál að við getum aldrei fellt okkur við innri markað Evrópusambandsins hvað landbúnað varðar. Við yrðum að fá þar undanþágu. Þess vegna er það nú svo að ég tek undir með hv. þm. að auðvitað er Evrópusambandið, þar sem frjálst flæði er með lifandi dýr og vörur, einn markaður sem við getum ekki átt þannig viðskipti við.

Varðandi það að gefa út reglur þá eru reglurnar náttúrlega nokkuð ljósar. Allur innflutningur á landbúnaðarvörum erlendis frá er bannaður í dag, hefur verið það og verður það þar til hann er leyfður og hann er leyfður undir sérstökum skilyrðum. Allur innflutningur á landbúnaðarvörum með ferðafólki er bannaður lögum samkvæmt. Þessu þarf auðvitað að koma mjög skýrt á framfæri og kann að vera að það þurfi að gera það enn þá skýrar en nú er, ég ætla ekkert að efast um það.

Ég vil svo segja frá því, hæstv. forseti, að ég fann reglugerð sem ég setti hinn 25. október í haust sem varðar notaðar landbúnaðarvélar og áhöld, þar með taldar hestakerrur. Leiki rökstuddur grunur á því að aðrar notaðar vélar og tæki hafi verið notuð í landbúnaði skal yfirdýralækni tilkynnt um innflutninginn. Ekki skal afgreiða vöruna fyrr en yfirdýralæknir hefur gefið samþykki sitt.

Á síðasta hausti var þetta allt saman bannað þannig að ég vil geta þess fyrst þetta hefur komið í umræðuna.