Afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar

Þriðjudaginn 24. apríl 2001, kl. 13:48:51 (6694)

2001-04-24 13:48:51# 126. lþ. 110.95 fundur 482#B afstaða ríkisstjórnarinnar til Kyoto-bókunarinnar# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það var reiðarslag þegar forseti Bandaríkjanna lýsti því yfir í mars að hann hafnaði Kyoto-bókuninni og í kjölfarið að Bandaríkin mundu draga til baka undirskrift sína við hana. Með því gekk hann ekki aðeins á bak orða Bandaríkjanna heldur líka á bak yfirlýsingar sem fulltrúi hans eigin ríkisstjórnar gaf á fundi umhverfisráðherra í Trieste í byrjun mars um að Bandaríkin mundu vinna að lausn þeirra deilumála sem ekki reyndist unnt að leysa á þingi aðildarríkja rammasamningsins um loftslagsbreytingar sem var haldinn í Haag í nóvember sl.

Helsta ástæðan fyrir því sem Bandaríkjaforseti gaf var að þjóðir þriðja heimsins væru í fyrsta áfanga samningsins undanþegnar aðgerðum til þess að draga úr losun. Það sýnir hið siðferðilega öngstræti síngirninnar sem forseti Bandaríkjanna hefur ratað í að þjóðir þriðja heimsins losa ekki nema tæp 2 tonn af koltvísýringi á mann árlega á meðan hver íbúi Bandaríkjanna losar 24 tonn á ári eða tólf sinnum meira. Bandaríkin eru ábyrg fyrir fjórðungi allrar losunar á þessum skaðlegu lofttegundum í veröldinni og án þátttöku þeirra liggur fyrir að það verður ákaflega erfitt að ná tökum á þessum vanda sem losun þeirra gæti kallað yfir mannkynið.

Ég hygg að flestum sem hér sitja sé eftir umræður síðustu ára kunnugt um hverjar afleiðingar veðurfarsbreytinganna gætu orðið. Vaxandi tíðni þurrka, flóða, fellibylja og storma mun sigla í kjölfar þeirra og við erum raunar þegar farin að sjá merkin víðs vegar um veröldina. Yfirborð sjávar mun hækka, bæði vegna hlýnunar hafsins og líka vegna bráðnunar jökla og íshellu heimskautanna. Vatnajökull gæti verið horfinn eftir eitt til tvö hundruð ár. Víðfeðm landflæmi í öðrum löndum gætu farið í kaf og heil menningarsamfélög með miklu eldri sögu og miklu fleiri íbúa en við gætu í bókstaflegri merkingu sokkið í hafið.

Ríkum þjóðum eins og okkur Íslendingum ber þess vegna siðferðileg skylda til að taka þátt í aðgerðum sem miða að því að sporna gegn þessari þróun. Við höfum líka ástæðu til þess að ugga um eigin hag. Ef allra verstu spár gengju eftir gæti Golfstraumurinn, sem er forsenda þess að þetta ágæta land okkar er byggilegt, hugsanlega veikst.

Norðurlöndin hafa sameiginlega lýst því yfir að þau styðji Kyoto-bókunina að því gefnu að niðurstaða náist um útfærslu svokallaðra sveigjanleikaákvæða. Íslensk stjórnvöld hafa að sönnu sett fram kröfur um tilteknar ívilnanir en ég ætla ekki að þessu sinni að gera deilur um þær kröfur að umræðuefni heldur einungis að ræða þá flóknu og erfiðu stöðu sem hér er komin upp vegna afstöðu Bandaríkjanna.

Í þessu máli skiptir það miklu að Evrópusambandið hefur lýst því yfir að það hyggist, jafnvel þó að Bandaríkin skipti ekki um skoðun, gera allt sem það getur til þess að bókunin verði eigi að síður að alþjóðlegum lögum árið 2002. En til þess þarf samþykki 55 ríkja sem hafa á bak við sig 55% losunarinnar eins og hún var árið 1990. Forseti Norðurlandaráðs sagði á blaðamannafundi með umhverfisráðherrum Norðurlanda í byrjun þessa mánaðar að Norðurlöndin yrðu að leggja allt kapp á að halda áfram viðræðum við Bandaríkjastjórn um verndun andrúmsloftsins og samkvæmt fréttatilkynningu sagði hæstv. umhvrh. okkar ríkisstjórnar að Norðurlöndin yrðu að standa saman en jafnframt nota ólíkar samskiptaleiðir innan Evrópusambandsins og í regnhlífarhópnum svokallaða, sem Íslendingar tilheyra, til þess að halda þessum viðræðum gangandi.

Allir helstu þjóðarleiðtogar heimsins hafa mótmælt ákvörðun Bush ákaflega harkalega og skemmst er að minnast þeirra lýsinga sem hæstv. forsrh. gaf á því hversu þungorður Jacques Chirac, forseti Frakklands, var í garð Bandaríkjanna þegar þeir áttu fund fyrir skemmstu. Evrópusambandið hefur fordæmt þessa ákvörðun ákaflega harkalega, kallað hana skelfilega og ögrandi, og á Evrópuþinginu var hún fyrr í þessum mánuði harðlega fordæmd og næstum allar þjóðir í þessum regnhlífarhópi sem við tilheyrum hafa lýst vonbrigðum sínum nema tvær, Úkraína og Ísland.

Ég held að það sé nauðsynlegt, herra forseti, að afstaða íslenskra stjórnvalda til þessara mikilvægu mála sé alveg skýr. Því hef ég leyft mér að spyrja hæstv. umhvrh. eftirfarandi spurninga:

1. Er íslenska ríkisstjórnin sömu skoðunar og Bush Bandaríkjaforseti að ekki séu traust vísindaleg rök fyrir því að losun gróðurhúsalofttegunda eigi þátt í breytingum á loftslagi jarðarinnar?

2. Hvernig ætla Íslendingar að beita áhrifum sínum á Bandaríkin til að fá þau til að breyta afstöðu sinni gagnvart Kyoto-samningnum?

3. Munu íslensk stjórnvöld styðja viðleitni ESB til að Kyoto-bókunin verði að alþjóðalögum fyrir haustið 2002?